Árs- og sjálfbærniskýrsla

Starfsemi og samfélag

Starfsemi og samfélag

Árið 2023 í hnotskurn

Brim er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi. Velta félagsins á árinu 2023 var 437,2 m€ samanborið við 450,9 m€ árið 2022.

Fjöldi stöðugilda Brims og dótturfélaga var 694 að meðaltali og fækkaði þeim um 18 frá árinu áður. Störfin spanna alla virðiskeðjuna, þ.e. veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins, nýsköpun og mannauðsmál. Brim er með starfsstöðvar í Reykjavík, Vopnafirði, Akranesi og Hafnarfirði og eru aðalskrifstofur félagsins við Norðurgarð í Reykjavík. Á árinu voru að jafnaði 10 fiskiskip í rekstri með línubátnum Kristjáni. Félagið er skráð á aðalmarkaði kauphallar, NASDAQ OMX Ísland, hluthafar voru 1.876 í lok árs 2023 og hefur þeim fjölgað um 20 milli ára.

  • Heildar botnfiskveiði jókst lítillega og var 43.545 tonn á móti 42.965 tonnum árið 2022. Þar af var afli togara 41.779 tonn, en árið 2022 var hann 41.225 tonn. Botnfiskafli til vinnslu í Norðurgarði í Reykjavík og Kambi í Hafnarfirði var 25.475 tonn í samanburði við 26.629 tonn.
  • Heildarafli uppsjávarskipanna Venusar, Víkings og Svans var svipaður á milli ára eða 152 þúsund tonn, samanborið við 151 þúsund tonn árið áður. Frystar uppsjávarafurðir námu 27.686 tonnum en fiskmjölsverksmiðjurnar tóku á móti 151.833 tonnum.
  • Brimskólinn hóf starfsemi en markmið hans er að styðja við hæfni, menntun og starfsþróun. Heilsueflingu á skipum Brims var hrundið í framkvæmd, með heilbrigðan lífsstíl starfsfólks að markmiði. Árlegur öryggisdagur fór fram í janúar og starfsmenn fengu fræðslu og þjálfun um samskipti á vinnustað.
  • Brim tók þátt í ýmiskonar hátíðahöldum fyrir almenning, meðal annars í tengslum við sjómannadaginn og tendrun Hamborgartrésins. Þá fóru ýmsir viðburðir fyrir starfsfólk fram, t.d. fjölskyldudagur, golfmót og jólaskemmtun.
  • Brim og Akraneskaupstaður skrifuðu undir samning um framhald á starfsemi Breiðar þróunarfélags til ársins 2026. Tæplega 100 einstaklingar eru með starfsaðstöðu í Breið nýsköpunarsetri.
  • Brim festi kaup á Fiskhúsinu í miðbæ Vopnafjarðar, með samfélagsþróun á Vopnafirði að leiðarljósi. Jafnframt hófst skógræktarverkefni Brims Torfastöðum. Markmið þess er uppbygging útivistarstíga og framleiðsla vottaðra kolefniseininga sem stuðla munu að kolefnishlutleysi, en snemma árs var undirrituð viljayfirlýsing með Vopnafjarðarhreppi og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um kolefnishlutleysi í sveitarfélaginu.
  • Viðskipti vegna kaupa Brims á 50% hlut í Polar Seafood Denmark voru fullfrágengin í apríl þegar allir fyrirvarar voru uppfylltir. Þá gerði Brim samkomulag um kaup á 10,83% hlut Sjávarsýnar ehf. í Iceland Seafood International hf. á árinu. Brim tók þátt í hlutafjárútboði Iceland Seafood International hf. í desember 2023 og átti 11,43% hlutafjár í félaginu um áramót.
  • Brim undirritaði samning um 220 m€ sambankalán, með sjálfbærnimælikvörðum, til endurfjármögnunar eldri lána. Lánveitendur voru Rabobank, Nordea og DNB.

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn Brims skipa fimm manns sem eru kjörin á aðalfundi félagsins ár hvert.

Stjórn Brims frá aðalfundi 2023:

  • Kristján Þ. Davíðsson, formaður
  • Anna G. Sverrisdóttir, varaformaður
  • Hjálmar Kristjánsson
  • Kristrún Heimisdóttir
  • Magnús Gústafsson

Nánari upplýsingar um stjórnina er að finna á vef félagsins, en þar er einnig að finna samþykktir félagsins, starfsreglur stjórnar, stjórnarháttayfirlýsingu, starfskjarastefnu og aðrar stefnur félagsins. Þær eru einnig aðgengilegar starfsfólki á innri vef Brims, þar sem breytingar á stefnum eru kynntar þegar þær eiga sér stað.

Stjórn og stjórnarhættir

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn Brims árið 2023 var skipuð eftirfarandi:

Guðmundur Kristjánsson

Forstjóri

Inga Jóna Friðgeirsdóttir

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Sveinn Margeirsson

Framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála

Stjórn og stjórnarhættir

Hluthafar

Skráð hlutafé Brims var 1.956,0 milljónir króna í árslok 2023. Félagið átti í árslok eigin hluti að nafnverði 30,5 milljónir króna. Útistandandi hlutafé nam 1.925,5 milljónum króna. Hluthafar í upphafi árs voru 1.856 en voru 1.876 í árslok. Í árslok 2023 áttu þrír hluthafar yfir 10% eignarhlut í félaginu en þeir voru Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. sem átti 44,66%, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild sem átti 14,44% og Lífeyrissjóður verslunarmanna sem átti 10,86%. 

Gengi hlutabréfa var 83,6 í árslok 2023 en 90,5 í ársbyrjun. Raunávöxtun hlutabréfa á árinu, að meðtöldum arði, var neikvæð um 4,64%. Þá er miðað við bréf sem keypt var á lokagengi ársins 2022 og selt í lok ársins 2023, að teknu tilliti til greiðslu arðs og verðbólgu á árinu. Sé litið til lengri tíma var raunávöxtun hlutabréfs, sem var keypt í lok árs 2003 og selt um síðustu áramót, 10,5% á ári að meðaltali. 

Skráð viðskipti með hlutabréf í Brimi námu 30.528 milljónum króna árið 2023. Skráð viðskipti árið 2022 námu 25.840 milljónum króna. Nafnlækkun úrvalsvísitölu OMX Iceland var 1,53% árið 2022 og nafnhækkun 1,25% að teknu tilliti til arðgreiðslna. 

EigandiEignahluturHlutfall
Útgerðarfélag Reykjavíkur hf.
859.870.977
44,66%
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild
278.087.000
14,44%
Lífeyrissjóður verslunarmanna
209.180.503
10,86%
KG Fiskverkun ehf.
78.024.576
4,05%
Birta lífeyrissjóður
61.625.418
3,20%
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins B-deild
59.039.000
3,07%
Brú Lífeyrissjóður starfsfólks sveitarfélaga
53.770.588
2,79%
Stekkjarsalir ehf.
36.500.000
1,9%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda
31.019.188
1,61%
Eignarhaldsfélag Vignis G. Jónssonar ehf.
15.722.173
0,82%

Stjórn og stjórnarhættir

Samstæðan

Stefna Brims er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu, sölu- og markaðsstarfsemi auk þess að styðja við nýsköpun tengda sjávarútvegi. Dóttur- og hlutdeildarfélög Brims, innanlands og utan, eru mikilvægir hlekkir í starfsemi félagsins og styðja við stefnu þess.

Dótturfélög

Gjörvi ehf.

Gjörvi ehf.

Gjörvi ehf. sérhæfir sig í alhliða viðhaldsþjónustu til skipa og véla- og smíðavinnu, ásamt tengdri þjónustu, bæði til innlendra og erlendra aðila.

Rekstrartekjur á árinu voru 1,5 m€. Tap af rekstrinum nam 0,002 m€. Heildareignir í árslok námu 0,3 m€ en eigið fé var neikvætt um 0,4 m€.

Brim á 100% eignarhlut í Gjörva ehf. og var bókfært verð eignarhlutarins neikvætt um 0,3 m€.

Vignir G. Jónsson ehf.

Vignir G. Jónsson ehf.

Vignir G. Jónsson ehf. sérhæfir sig í fullvinnslu á hrognum og er einn stærsti kaupandi grásleppu- og þorskhrogna á landinu.

Rekstrartekjur á árinu voru 16,6 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 0,02 m€. Heildareignir í árslok námu 20,1 m€ en eigið fé var 14,0 m€ eða 70%.

Brim á 100% eignarhlut í Vigni G. Jónssyni ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 19,8 m€ í árslok 2023.

Seafood Services ehf.

Seafood Services ehf.

Seafood Services ehf. er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í ýmiss konar þjónustu við sjávarútveginn.

Rekstrartekjur á árinu voru 4,8 m€. Hagnaður var af rekstrinum að fjárhæð 0,1 m€. Heildareignir í árslok námu 1,8 m€ en eigið fé var 1,3 m€ eða 76%.

Brim á 100% eignarhlut í Seafood Services ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 2,0 m€.

Fiskvinnslan Kambur ehf.

Fiskvinnslan Kambur ehf.

Fiskvinnslan Kambur ehf. rekur fiskvinnslu í Hafnarfirði. Dótturfélög félagsins eru Grunnur ehf. og Stapavík hf.

Rekstrartekjur á árinu voru 17,9 m€. Tap af rekstrinum nam 0,2 m€. Heildareignir í árslok námu 26,0 m€ en eigið fé var 4,9 m€ eða 19%.

Brim á 100% eignarhlut í Fiskvinnslunni Kambi ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 18,1 m€.

Sölufélög í Asíu

Sölufélög í Asíu

Brim á allt hlutafé í þremur sölufélögum í Asíu: Icelandic Japan KK, Icelandic China Trading Co. Ltd. og Icelandic Hong Kong Ltd.

Samanlagðar rekstrartekjur félaganna á árinu námu 146,1 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 2,4 m€. Heildareignir í árslok námu 45,3 m€ en eigið fé var 20,5 m€.

Brim á 100% eignarhlut í félögunum og nam bókfært verð eignarhlutanna 32,4 m€.

Sólborg ehf.

Sólborg ehf.

Sólborg ehf. á frystitogarann Sólborgu RE-27.

Á tímabilinu varð tap af rekstrinum að fjárhæð 3,4 m€. Heildareignir í árslok námu 79,5 m€ en eigið fé var 2,8 m€ eða 4%.

Brim á 100% eignarhlut í Sólborgu ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 2,8 m€.

Grandi Limitada

Grandi Limitada

Grandi Limitada er eignarhaldsfélag í Chile sem er eigandi 20% eignahlutar í Deris S.A.

S-13 Holding ApS

S-13 Holding ApS

Brim stofnaði á árinu eignarhaldsfélagið S-13 Holding ApS. í tengslum við fjárfestingu sína í Polar Seafood Denmark A/S.

Á tímabilinu varð hagnaður af rekstrinum að fjárhæð 5,0 m€. Heildareignir í árslok námu 90,7 m€ en eigið fé var 46,9 m€ eða 52%.

Brim á 100% eignarhlut í S-13 Holding ApS og nam bókfært verð eignarhlutarins 46,9 m€.

Hlutdeildarfélög

Stika umhverfislausnir ehf.

Stika umhverfislausnir ehf.

Brim á 57% hlut í Stiku sem þróar hugbúnað fyrir umhverfisbókhald fyrirtækja, ásamt snjallvigtarbúnaði fyrir úrgang. Lausnir félagsins auðvelda fyrirtækjum og opinberum aðilum að sinna upplýsingagjöf og stefnumörkun í umhverfis- og sjálfbærnimálum.

Breið þróunarfélag

Breið þróunarfélag

Brim á 50% í Breið þróunarfélagi á móti Akraneskaupstað. Þróunarfélagið hefur að markmiði að stuðla að uppbyggingu á Breiðinni á Akranesi, með áherslu á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, aukin atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu.

Guðrún Þorkelsdóttir ehf.

Guðrún Þorkelsdóttir ehf.

Brim á 50% hlut í útgerðarfyrirtækinu Guðrún Þorkelsdóttir ehf. Félagið gerir út uppsjávarskipið Guðrúnu Þorkelsdóttur SU.

StorMar ehf.

StorMar ehf.

Brim á 25% hlut í Stormar ehf sem annast útflutning á sjávarafurðum. Aðrir hluthafar eru Ísfélag Vestmannaeyja hf., Skinney-Þinganes hf. og Gjögur hf.

Melnes ehf.

Melnes ehf.

Brim á 43% hlut í Melnesi ehf. sem er útgerðarfélag á Rifi sem gerir meðal annars út krókabátinn Særif SH-25.

Þórsberg ehf.

Þórsberg ehf.

Brim á 41% hlut í Þórsbergi ehf. sem er útgerðarfélag á Tálknafirði sem gerir meðal annars út krókabátinn Indriða Kristins BA.

Laugafiskur ehf.

Laugafiskur ehf.

Laugafiskur ehf. rekur fiskþurrkun á Reykjanesi og selur afurðir sínar til erlendra viðskiptavina. Brim á þriðjungshlut í félaginu á móti Skinney-Þinganes hf. og Nesfiski ehf.

Icelandic Pelagic ehf.

Icelandic Pelagic ehf.

Brim á 33% í Iceland Pelagic ehf. Félagið sérhæfir sig í sölu og dreifingu frystra uppsjávarsjávarafurða. Aðrir hluthafar eru Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Skinney-Þinganes hf.

Marine Collagen ehf.

Marine Collagen ehf.

Brim á 25% hlut í Marine Collagen þar sem stefnt er að framleiðslu á gelatíni og kollageni úr 4.000 tonnum af roði úr íslenskum botnfiski á ári. Aðrir hluthafar eru Samherji hf., Vísir hf. og Þorbjörn hf., hver með 25% eignarhlut í félaginu.

Deris S.A.

Deris S.A.

Brim á 20% hlut í eignarhaldsfélaginu Deris S.A. í Síle. Deris á sjávarútvegsfélögin Friosur og Pesca Chile. Félögin gera út tvo frystitogara, tvö línuskip sem frysta aflann, þrjá ísfisktogara og eitt skip til ljósátuveiða. Auk þess rekur það eitt fiskiðjuver.

Stjórn og stjórnarhættir

Viðskipti tengdra aðila

Starfsemi Brims fellur undir reglugerð um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila. Reglunum er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum tengdra lögaðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila, þannig að verðlagning sé í samræmi við svokallaða armslengdarreglu. Reglurnar eiga eingöngu við þegar tiltekin tengsl eru á milli lögaðila sem eiga í viðskiptum.

Tengsl eru fyrir hendi þegar bein og/eða óbein tengsl er á milli lögaðilanna sjálfra eða þegar tengsl er á milli manna sem eru meirihlutaeigendur lögaðilanna eða fara með stjórnunarleg yfirráð yfir þeim lögaðilum sem eiga í viðskiptum. Skilgreina má tengsl milli lögaðilanna sjálfra með beinum eða óbeinum hætti á eftirfarandi hátt:

  • Þegar lögaðilar eru hluti af sömu samstæðunni eru þeir ótvírætt tengdir lögaðilar.
  • Þegar lögaðili er undir beinu og/eða óbeinu meirihluta eignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu telst hann tengdur öllum lögaðilum innan samstæðunnar.
  • Þegar lögaðili á meira en 50% í öðrum lögaðila með óbeinum hætti teljast þeir tengdir í skilningi ákvæðis laganna um milliverðlagningu. Ef annar lögaðilinn er hluti af samstæðu telst hinn lögaðilinn tengdur öllum öðrum lögaðilum innan samstæðunnar.

Brim seldi eftirfarandi tengdum aðilum vörur á árinu 2023

  • Icelandic Japan, sala á afurðum 15,9 milljónir evra. 
  • Vignir G. Jónsson, sala á hrognum 2,6 milljónir evra. 
  • Fiskvinnslan Kambur, sala á botnfiski til vinnslu 0,4 milljónir evra. 
  • Seafood Services, sala á hryggjum 0,3 milljónir evra. 
  • Iceland Pelagic, sala á sjávarafurðum 48,0 milljón evra. 
  • Laugafiskur, sala á hausum 1,5 milljón evra. 
  • Stormar, sala á afurðum 6,0 milljón evra 
  • Marine Collagen, sala á roði 0,4 milljón evra 
  • Guðrún Þorkelsdóttir, kvótaleigu 0,8 milljón evra 

Önnur viðskipti milli tengdra aðila:

  • Útgerðarfélag Reykjavíkur og dótturfélag seldi Icelandic Japan afurðir fyrir 25,5 milljónir evra. 
  • Seafood Services sem annast gæðaeftirlit á afurðum seldi Icelandic Japan þjónustu fyrir 0,8 milljónir evra og Icelandic Hong Kong fyrir 3,1 milljónir evra. 
  • Vignir G. Jónsson seldi Icelandic Japan afurðir fyrir 0,5 milljónir evra. 
  • Fiskvinnslan Kambur seldi Laugafiski hausa fyrir 0,5 milljónir evra. 
  • Icelandic Hong Kong seldi Icelandic China afurðir fyrir 3,1 milljónir evra. 
  • Gjörvi seldi Sólborgu þjónustu fyrir 0,6 milljónir evra. 

Önnur viðskipti milli tengdra aðila eru óveruleg.

Brim keypti einnig vörur af tengdum aðilum á árinu 2023

  • Fiskvinnslan Kambur, kaup á afurðum 3,4 milljón evra. 
  • Gjörvi skipaþjónusta 0,9 milljón evra. 
  • Seafood Services, þjónusta 0,2 milljón evra. 
  • Sólborgu, leiga 0,6 milljónir evra. 
  • Guðrún Þorkelsdóttir, hráefni 4,2 milljónir evra. 
  • Iceland Pelagic, geymslugjöld 1,0 milljónir evra

Önnur viðskipti Brims við tengda aðila eru óveruleg.

Félagslegir þættir

Mannauður

Stöðugildi hjá Brimi og dótturfélögum voru að meðaltali 694 árið 2023 og var starfsmannaveltan 12,6 hjá fastráðnu starfsfólki. Starfsmannavelta er nokkru hærri en 2022 og er ástæða þess að eitt skip var selt og að starfsfólk Kambs kom yfir á botnfisksvið Brims. Fjöldi kvenna sem starfa hjá félaginu jókst um 2% milli áranna 2022 og 2023 og er 31% starfsmanna konur og 69% karlar.

Félagslegu úttektinni SMETA var viðhaldið í fiskiðjuverinu í Norðurgarði á árinu 2023. Úttektin snýr að fyrirkomulagi starfsmannamála, vinnuvernd, starfsumhverfi og viðskiptasiðferði og var niðurstaða hennar ágætiseinkunn. Brim er aðili að vottun FISH Standard for Crew sem Ábyrgar fiskveiðar ses. heldur utan um, í umboði Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssambands smábátaeigenda. Staðall FISH Standard for Crew byggir á ILO 188, sem er eini alþjóðasamningurinn sem tekur til vinnuaðstæðna sjómanna á heimsvísu. Vottunin snýr að framkvæmd félagslegrar úttektar á vinnuaðstæðum á fiskiskipum.

Félagslegir þættir

Fræðsla

Brim leggur áherslu á framúrskarandi hæfni starfsfólks og fjárfestir markvisst í fræðslu og þjálfun þess. Í notkun hjá Brimi er nýtt íslenskt fræðslukerfi, LearnCove, sem býður upp á miðlægt aðgengi þjálfunarefnis, samvinnuvettvang, aðlögun að fjölbreyttum þörfum starfa, hlutverkamiðaða þjálfun og fjölmenningarlegan stuðning við nám. Brim og LearnCove hafa unnið sameiginlega að þróun fræðslukerfisins. Sett hefur verið upp kennslustofa í húsnæði Brims þar sem hægt er að taka allt að 15 manns í kennslustundir.

Brimskólinn var settur á laggirnar haustið 2022 og er kjarni starfsþróunar og um leið verkfæri starfsfólks til þekkingarleitar. Fyrstu skref skólans voru tekin í samstarfi við Fisktækniskóla Íslands. Unnið er út frá fjölbreyttum kennsluaðferðum og boðið er upp á staðbundna sem og rafræna þjálfun. Á árinu 2023 útskrifuðust fimm starfsmenn frá Brimskólanum úr 60 eininga námi í gæðastjórnun.

Hjá Brimi starfar fólk frá yfir 25 löndum. Áhersla er lögð á þjálfun í íslensku og boðið upp á íslenskukennslu á vinnustaðnum. Leitað er leiða til að  gera námið skemmtilegt og þannig úr garði að það styðji starfsfólk í samskiptum sín á milli og í samfélaginu. Íslenskunámskeiðin, sem haldin eru í samstarfi við Mími hafa verið í sífelldri þróun, m.a. hefur verið þróað starfstengt nám hjá Brimi, þar sem starfsfólk lærir orðaforða sem tengist þeirra vinnuumhverfi.

Bara tala - öðruvísi íslenskukennsla

Á árinu 2023 var hrundið af stað þróunarverkefni í öflugu samstarfi við Akademias um nýja nálgun á íslenskukennslu. Hópur hjá Brim stundaði íslenskunám í fjóra mánuði. Námið var rafrænt að verulegu leyti og nýtti Bara tala appið. Verkefnið gekk vonum framar og var árangur þátttakenda eftirtektarverður. Framundan er gerð frekara kynningarefnis (myndband, viðtöl o.fl.) sem stefnt er að því að kynna fyrir starfsfólki Brims og mennta og menningarmálaráðuneyti.

Starfsfólk Brims hefur aðgang að rafrænu fræðslusafni Akademias sem nýtist til að mæta skyldufræðslu en jafnframt til að styrkja starfsfólk í núverandi starfi og í þróun fyrir tækifæri framtíðarinnar. Brim og Akademias hafa gert með sér samstarfssamning um að skipuleggja og hanna námskeið fyrir fræðslu í sjávarútvegi.

Annað hvert ár er haldið grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk. Markmið þess er að auka þekkingu á vinnslu sjávarafla, efla sjálfstraust og styrkja faglega hæfni. Starfsfólk á sjó sækir námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna, þar sem kennt er á björgunar- og öryggisbúnað og rétt viðbrögð við áföllum.

Allt starfsfólk Brims fékk á árinu 2023 fræðslu um mikilvæga þætti í samskiptum á vinnustað. Í fræðsluefninu er lögð áhersla á bætt samskipti og starfsanda og farið yfir hvernig neikvæð samskipti geta litað vinnustaðamenningu og ýtt undir vanlíðan. Farið er yfir hugtökin einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi (EKKO), fjallað um skilgreiningar, birtingarmyndir og afleiðingar þeirra, ásamt viðbrögðum ef slíkar aðstæður koma upp á vinnustaðn.

Fjöldi fræðslustunda

Fjöldi starfsmanna Fræðslustundir
Námskeið
2023
2022
2021
2023
2022
2021
Slysavarnaskóli sjómanna
32
86
51
255
516
378
Öryggismál
691
16
29
310
16
11
Fiskvinnslunámskeið
10
48
Nýliðanámskeið
40
22
35
4
2,5
6
Íslenska
17
59
47
226
37
32
Gæðamál
155
146
11
1138
57
234
Tækni
10
20
18
840
6
121
Ýmislegt - persónuleg færni
249
28
148
214
9,5
25
Samtals
1194
387
339
2987
722
807
Heilsa og heilbrigðir lífshættir

Heilsa og heilbrigðir lífshættir

Brim hvetur starfsfólk til að stunda heilbrigða lífshætti. Starfsfólk er hvatt til að nýta sér vistvæna samgöngumáta og býðst samgöngustyrkur eða árskort í strætó, auk þess sem rafhleðslustöðvar eru við skrifstofur félagsins. Íþróttastyrkur er veittur þeim sem stunda reglulega líkamsrækt og er starfsfólk hvatt til að taka þátt í landsátökum eins og Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna.

Boðið er upp á mat á hóflegu verði á starfsstöðvum félagsins. Auk þess hafa læknir og hjúkrunarfræðingur viðveru í Norðurgarði, aðra hvora viku. Starfsfólki stendur til boða árleg heilsufarsskoðun, ráðgjöf og inflúensusprauta.

Brim stóð fyrir þriggja mánaða heilsueflingu á árinu 2023 fyrir starfsfólk á öllum skipum félagsins. Þar var boðið upp á verklega þjálfun og fræðslu af ýmsu tagi, lögð áhersla á mataræði og leitað til helstu sérfræðinga í þeim efnum.

Félagsstarf starfsfólks

Félagsstarf starfsfólks

Brim stóð fyrir ýmsum viðburðum fyrir starfsfólk á árinu, svo sem vettvangsferð, kvöldverðum, pílu, karókí, utanlandsferð, gistingu innanlands og fjölskyldudag Brims í fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Golfmót starfsfólks var haldið í byrjun sumars á golfvellinum Seltjarnarnesi. Á Vopnafirði var haldið veglegt síldarslútt í nóvember þar sem starfsfólk Brims tók að sér að sjá um matinn og skreytingar.

Brimgarður, starfsmannafélag Brims í Reykjavík, hélt ýmsa viðburði fyrir starfsfólk á árinu. Vorferð félagsins var í Keiluhöllina Egilshöll, um haustið var boðið upp á skoðunarferð í hellinn Víðgelmi og árið endaði á jólahlaðborði og jólaballi.

Brim, í samstarfi við Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð stóðu fyrir sjómannadagsskemmtun á Grandanum. Dagskráin var fjölbreytt er talið að 30-40 þúsund manns hafi mætt á hátíðina. Brim tók einnig þátt í sjómannadagsskemmtun á Vopnafirði.

Félagslegir þættir

Öryggismál

Stjórnendur, starfsfólk og öryggisnefndir bera ábyrgð á öryggismálum. Brim leggur ríka áherslu á þau og heldur árlega öryggisdag með stjórnendum og starfsfólki. Félagið býður upp á öfluga fræðslu, með það að markmiði að byggja upp sterka öryggisvitund meðal starfsfólks og stuðla að því að allir komist heilir heim úr vinnu. Stjórnendur bera ábyrgð á búnaði og öryggisskipulagi á þeim vinnusvæðum og starfstöðvum sem þeir hafa umsjón með. Félagið treystir því að stjórnendur sýni jafnan gott fordæmi og leiði vinnuverndastarf.

Árið 2023 var innleitt nýtt slysaskráningakerfi, ATVIK. Þar eru öll slys skráð, en jafnframt hægt að skrá ábendingar og næstum slys, en slík yfirsýn auðveldar fyrirbyggjandi aðgerðir.

Nýtt eldvarnaeftirlit var innleitt í Norðurgarði á árinu.

Öryggisnefndir eru starfandi í Reykjavík, Vopnafirði, Akranesi og á skipum félagsins. Öryggisnefndir funda fjórum sinnum á ári og hafa umsjón með að áhættumat sé gert á starfsstöðvum félagsins. Þetta er í samræmi við reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006.

Félagslegir þættir

Slys

Brim lætur sig slysavarnir miklu varða og styður slysavarna- og björgunarstarf til sjós og lands. Skipulag öryggismála miðar að því að auka vægi málaflokksins innan félagsins og efla skilvirkni hans. Stjórnendur bera ábyrgð á öryggi síns starfsfólks en allir vinna saman að því að halda vinnustaðnum öruggum.

Stjórnendur eru lykil persónur þegar kemur að því að leiða vinnuverndastarf félagsins, enda hefur viðhorf þeirra til öryggismála áhrif á almennt viðhorf starfsfólks til málaflokksins. Áhersla er lögð á fræðslu, forvarnir, góðan búnað, öflugar öryggisnefndir og þátttöku starfsfólks í að halda vinnustaðnum öruggum og byggja upp sterka öryggismenningu. Árlega er haldinn öryggisdagur, þar sem farið yfir öryggismál félagsins.

Eldvarnareftirlit í höfuðstöðvum félagsins var bætt á árinu. Brim leggur áherslu á að öll slys séu skráð og eru verkferlar þess efnis kynnt starfsfólki. Fjarveruslys starfsfólks í landi eru tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags. Fjarveruslys starfsfólks á sjó eru tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands, Rannsóknarnefndar sjóslysa og tryggingafélags. og tekið í notkun nýtt slysaskráningarkerfi. Það auðveldar skráningu starfsfólks á slysum, næstum slysum og ábendingum um hættur sem geta valdið slysum. Eftirfarandi skráningar eru fyrir hendi í kerfinu:

  • Ábendingar – t.d. hættur í vinnuumhverfi og óöruggur búnaður
  • Næstum slys – starfsfólk hefur næstum orðið fyrir slysi í vinnuumhverfinu
  • Minniháttarslys – Slys sem hægt er að gera að á staðnum
  • Fjarveruslys – starfsmaður er frá einn dag eða meira
  • Ógn – Einelti, kynferðileg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi

Samtals voru tilkynnt 62 slys á árinu en þau skiptast í 28 slys til sjós og 34 slys á landi. Aukning hefur orðið á skráningu í slysaskráningarkerfið, m.a. ábendinga, sem bendir til meiri öryggisvitundar meðal starfsfólks.

Veiðar og vinnsla

Í lok árs voru eftirtalin skip í rekstri hjá Brimi, Kambi og Guðrúnu Þorkelsdóttur.

Frystitogarar

Frystitogarar

  • Vigri RE
  • Örfirisey RE
  • Sólborg RE
Ísfisktogarar

Ísfisktogarar

  • Akurey AK
  • Helga María AK
  • Viðey RE
Uppsjávarskip

Uppsjávarskip

  • Venus NS
  • Víkingur AK
  • Svanur RE
  • Guðrún Þorkelsdóttir SU
Krókabátur

Krókabátur

  • Kristján HF

Veiðar og vinnsla

Botnfisksvið

Aukning var á botnfiskheimildum Brims kvótaárið 2023/2024 eða um 1% í þorski, 62% í gullkarfa og 23% í ýsu. Á móti var lækkun í grálúðu 11%, 7% í ufsa og aflamark í djúpkarfa var fellt niður. Ekki var úthlutað aflamarki á grundvelli veiðiréttar í Barentshafinu sem skilgreint er í rússneskri lögsögu fyrir árið 2023.

Heildar botnfiskveiði jókst lítillega milli ára og var 43.545 tonn á móti 42.965 tonnum árið 2022. Þar af var afli togara 41.779 tonn, en árið 2022 var hann 41.225 tonn. Afli á úthaldsdag var 27,2 tonn en 2022 var hann 29,5 tonn. Línubáturinn Kristján veiddi 1.767 tonn á árinu, en 1.740 tonn árið 2022.

Þann 15. ágúst fór frystitogarinn Sólborg í sína fyrstu veiðiferð fyrir Brim, eftir umtalsverðar endurbætur á millidekki skipsins. Örfirisey var í slipp í fjórar vikur, þar sem venjulegum viðhaldsverkefnum var sinnt. Öll ísfiskskipin stoppuðu í 10-20 daga útaf ýmsum viðhaldsverkefnum.

Afli til vinnslu í Norðurgarði var 21.734 tonn af þorski, ufsa, ýsu og karfa, sem er aðeins meira en árið áður þar sem unnin voru 21.444 tonn. Töluvert minna var unnið af ufsa á árinu samanborið við fyrri ár, en meira af ýsu.

Vinnsla gekk ágætlega á árinu. Tekinn var í notkun nýr flokkari fyrir lausfrystar afurðir sem hefur reynst vel. Einnig hafa verið tilraunir í gangi með myndgreiningu á flökum fyrir gæðaskoðun.

Í fiskvinnslunni Kambi voru unnin 3.741 tonn af þorski og ýsu samanborið við 5.185 tonn á árinu á undan.

Afli og verðmæti botnfiskskipa

20232022
Afli (tonn)
Verðmæti (þús.evra)
Afli (tonn)
Verðmæti (þús.evra)
Ísfisktogarar
23.934
46.843
24.930
48.628
Akurey
7.709
15.186
7.033
13.776
Viðey
7.403
14.432
8.531
16.347
Helga María
7.054
13.181
7.626
14.297
Kristján*
1.767
4.044
1.740
4.209
Frystitogarar
19.612
57.456
18.035
57.628
Örfirisey
7.296
22.040
9.280
32.084
Vigri
9.513
27.577
8.755
25.593
Sólborg
2.802
7.839
0
0
Samtals
43.545
104.299
42.965
106.256

Botnfiskafli til vinnslu

2023 2022
Norðurgarður
Kambur
Samtals
Norðurgarður
Kambur
Samtals
Þorskur
10.161
2.015
12.176
10.835
4.128
14.963
Ufsi
4.370
4.370
6.101
57
6.158
Karfi
5.563
5.563
4.284
4.284
Ýsa
1.640
1.726
3.366
224
1.000
1.224
21.734
3.741
25.475
21.444
5.185
26.630

Veiðar og vinnsla

Uppsjávarsvið

Heildarafli uppsjávarskipanna Venusar, Víkings og Svans var svipaður 2023 og 2022 eða 152 þúsund tonn, samanborið við 151 þúsund tonn árið áður.

Uppsjávarskipið Guðrún Þorkelsdóttir sem Brim á 50% hlut í var með svipaðan afla og árið áður eða tæp 13 þús tonn.

Í upphafi árs var ekki gert ráð fyrir mikilli loðnuveiði og hófu uppsjávarskipin kolmunnaveiði í janúar suður af Færeyjum.

Loðnuveiðar hófust tiltölulega rólega í byrjun febrúar en þegar líða tók á mánuðinn var ljóst að heimildirnar yrðu töluvert meiri en ráð var fyrir gert. Var þá settur fullur kraftur í veiðarnar og gengu þær vonum framar og náðist að fullnýta úthlutuðum heimildum félagsins.

Aftur var haldið til kolmunnaveiða í apríl og stóðu þær veiðar fram yfir miðjan maí.

Makrílveiðar hófust í lok júní og stóðu til loka ágúst og gengu veiðarnar ágætlega. Líkt og árið áður höfðu skipin samstarf í veiðunum þannig að alltaf var veitt í eitt skipanna þangað til að það var komið með skammt til löndunar og svo koll af kolli.

Síldveiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hófust strax í kjölfarið og stunduðu tvö skipanna þær veiðar sem lauk um miðjan október. Þriðja uppsjávarskipið fór hinsvegar á kolmunna í íslenska landhelgi og fengust rúmlega 9.000 tonn af kolmunna á rúmum mánuði.

Eftirstöðvar af íslensku síldinni voru veiddar í nóvember og fóru í jólafrí snemma þetta árið.

Á Akranesi hófst móttaka á loðnu í byrjun mars og stóð út mánuðinn og var verksmiðjan og hrognavinnslan keyrð á fullu. Tekið var á móti þremur förmum af kolmunna í apríl.

Á Vopnafirði var uppsjávarfrysting og vinnsla á mjöli og lýsi mestan hluta ársins líkt og á síðasta ári.

Afli og verðmæti uppsjávarskipa

2023 2022
Afli (tonn)
Verðmæti (þús. evra)
Afli (tonn)
Verðmæti (þús. evra)
Venus
54.172
21.825
58.145
19.646
Víkingur
52.362
21.093
51.959
18.523
Svanur
45.575
18.043
41.048
15.787
Samtals
152.109
60.962
151.151
53.956

Frystar uppsjávarafurðir (tonn)

2023 2022
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Loðna fryst
5.624
5.624
5.048
5.048
Loðnuhrogn
2.244
3.029
5.273
1.780
748
2.528
Síld
9.319
9.319
8.102
8.102
Makríll
7.470
7.470
8.896
8.896
2.244
25.442
27.686
1.780
22.794
24.574

Móttekinn afli í fiskmjölsverksmiðjum (tonn)

2023 2022
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Loðna
21.309
28.797
50.106
38.966
42.841
81.807
Síld
13.790
13.790
3.018
13.898
16.915
Makríll
18.570
18.570
11.362
11.362
Kolmunni
5.745
59.456
65.201
39.633
39.633
Annað
4.071
96
4.167
2.234
76
2.310
Samtals
31.124
120.708
151.833
44.217
107.811
152.028

Gæðamál

Gæðavottanir

Allar starfsstöðvar Brims, til sjós og lands, eru undir opinberu eftirliti Matvælastofnunar (MAST) sem fylgist með því að farið sé að lögum og reglum. Eftirlit MAST byggist á eftirlitsskoðunum sem fara í sumum tilvikum fram án fyrirvara.

Starfsemi félagsins í fiskiðjuverum í Reykjavík og á Vopnafirði er vottuð samkvæmt IFS-staðlinum (International Feature Standard-Food). Þetta er alþjóðlega viðurkenndur staðall og einn mest notaði staðall á sviði matvælaöryggis ásamt ISO og BRC. Þessir megin staðlar matvælaöryggis eru samræmdir undir merkjum Global Food Safety Initiative (GFSI). Starfsemi Kambs, Vignis G. Jónssonar og fiskiðjuvers Brims í Norðurgarði er tekin út af FDA (Food and Drug Administration í Bandaríkjunum). Allar starfsstöðvar hafa rekjanleikavottun MSC (Marine Stewardship Council) og hagnýtir félagið vottun IRF (Iceland Responsible Fisheries) við veiðar félagsins.

Fiskmjölsverksmiðjurnar á Akranesi og Vopnafirði eru vottaðar samkvæmt FEMAS-staðli (Feed Materials Assurance Scheme). FEMAS er alþjóðlegur fóðuröryggisstaðall fyrir afurðir framleiddar í dýrafóður og voru verksmiðjurnar á Akranesi og Vopnafirði báðar teknar út á árinu.

Vottuð gæðakerfi félagsins gera meðal annars ráð fyrir því að meta ánægju viðskiptavina. Verklagið kveður á um að matið skuli ná til viðskiptavina sem standa fyrir að minnsta kosti 80% af veltu. Þetta mat fer fram árlega. Niðurstaða matsins fyrir síðasta ár 2023 var að 30 viðskiptavinir voru metnir í A flokk og 5 í B flokk. Staðan er því talin vera mjög góð og ekki þörf á aðgerðum.

Engar innkallanir voru árið 2023, hvorki vegna merkinga né annarra orsaka og ekki voru skjalfest nein alvarleg frávik frá reglum félagsins varðandi upplýsingagjöf eða merkingar á afurðum félagsins.

Gæðastefna Brims

- Að vörur framleiddar af Brim séu af réttum gæðum og uppfylli væntingar viðskiptavina félagsins.

- Að vörur séu afhentar í umsömdu magni, á réttum tíma, á umsaminn stað og í réttu ástandi.

- Brim vinnur að því að lágmarka umhverfisáhrif við veiðar, vinnslu og flutning afurða.

- Brim vinnur af heilindum í sátt við samfélagið, með starfsfólki félagsins og viðskiptavinum.

Gæðastefna Brims er undirrituð af forstjóra félagsins. Brim hefur jafnframt sett sér ítarlegri gæðamarkmið sem eru tengd einstaka framleiðslueiningum, vottunum og stöðlum.

Gæðastefna Brims

Gæðamál

Rekjanleiki

Brim veiðir einungis villtan fisk og eru afurðir félagsins í öllum tilvikum hreinar og náttúrulega heilnæmar sjávarafurðir. Rekjanleiki afurða er mikilvægur hluti matvælaframleiðslu og byggir matvæla- og fóðuröryggiskerfi Brims á því að rekja megi vöruna frá uppruna hennar og allt til viðskiptavinar. Við veiðar eru skráðar nákvæmar upplýsingar um afla, svo sem veiðisvæði, veiðarfæri, samsetning afla, magn og fleira. Uppruna hráefnis í vinnslu er haldið til haga og fylgja upplýsingar um uppruna afurðar til kaupanda. Enn fremur er haldið utan um ráðstöfun allra afurða. Þannig eru allar afurðir rekjanlegar frá veiðum til kaupanda. Þessi rekjanleiki er prófaður reglulega í innra eftirliti félagsins og einnig í ytri úttektum á kerfum félagsins, meðal annars í úttektum tengdum upprunavottunum.

Afurðir félagsins eru í öllum tilvikum merktar í samræmi við reglur um merkingar á sjávarfangi. Þannig er ávallt ljóst um hvaða fisktegund og veiðisvæði er að ræða og eins hvaða veiðarfæri voru notuð við veiðar.

Markaðir

Markaðsmál

Sölufélög í eigu Brims sjá að mestu leyti um sölu afurða félagsins en auk þeirra starfa þrír sölustjórar hjá Brimi. Icelandic Japan, Icelandic China og Icelandic Hong Kong, sem eru í eigu Brims, annast sölu á afurðum félagsins í Asíu. Iceland Pelagic, sem er í 33% eigu Brims, sér um sölu og dreifingu á Austur-Evrópumarkað, þar sem frystar uppsjávarafurðir eru fyrirferðarmestar. Sölustjórar Brims selja ferskar og frosnar afurðir á Vestur-Evrópu og Ameríku. Sala á mjöl-og lýsisafurðum er í höndum starfsfólks uppsjávarsviðs Brims.

Sala uppsjávarafurða gekk vel á árinu og voru markaðir fyrir mjöl og lýsi sérstaklega góðir.  Búist er við lítilsháttar lækkun í fyrsta ársfjórðungi en ekki hafa komið út endanleg verð ennþá.

Mikil pressa var á verð fyrir sjófrystar afurður, sem voru sögulega há í upphafi árs. Verð gáfu eftir fram undir árslok en hægt hafði verulega á því ferli og sumar tegundir farnar að haldast stöðugar undir lok árs. Eftirspurn hélst ágæt þrátt fyrir fallandi verð, háan geymslu- og fjármagnskostnað í viðskiptalöndum okkar og óvissu hjá kaupendum í slíkum aðstæðum.

Í árslok var heldur tekið að birta til og vonir standa til þess að markaðurinn snúist frá kaupendamarkaði meira yfir í seljandamarkað þegar kemur lengra inn á 2024.

Markaðsaðstæður í landfrystum afurðum hafa breyst þannig að HORECA (Hotel - Restaurant - Catering) markaðir hafa verið að styrkjast eftir að ferðahugur jókst og heimsóknir á veitingahús jukust. Á móti hefur hægt á smásölumarkaði. Lokað verður  á innflutning þorsks með rússneskan uppruna til Bandaríkjanna í lok maí. Markaðir í Evrópu hafa verið undir þrýstingi vegna þessa, þar sem gert hefur verið ráð fyrir að vörur með rússneskan uppruna muni berast til Evrópu í meira mæli.  Gert er ráð fyrir að þetta muni leiða til aukinna tækifæra á Bandaríkjamarkað fyrir Íslenskan fisk.

Sala ferskra afurða gekk vel á árinu, verðin voru mjög sterk framan af en gáfu lítillega eftir þegar leið á árið. Heilt yfir voru verðin há í sögulegu samhengi.

Nýsköpun

Samstarf um nýsköpun

Brim hefur átt í samstarfi við ýmsa háskóla um árabil. Dæmi um vel heppnuð nemendaverkefni á árinu 2023 eru tvö meistaraverkefni við Danmarks Tekniske Universitet (DTU) og eitt BSc verkefni á sviði verkfræði og lokaverkefni í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Öll eiga verkefnin sameiginlegt að vera unnin í samstarfi nemenda, akademískra starfsmanna háskólanna og starfsfólks Brims og hafa að markmiði aukna verðmætasköpun og minni umhverfisáhrif tengt starfsemi Brims.

Samstarfi hefur verið komið á m.a. við Listaháskólann, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um þátttöku Brims í námskeiðum og starfsnámi, en með því gefst nemendum háskóla tækifæri á að kynna sér starfsemi framsækins sjávarútvegsfyrirtækis.  

Þá er Brim í samstarfi við íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LearnCove og Akademias um þróun og rekstur Brimskólans. Margskonar fræðsluefni, sem og formlegra nám er í boði og útskrifuðust 5 nemendur Brimskólanns úr Gæðastjórnunarnámi frá Fisktækniskóla Íslands. Ýmis fleiri dæmi um nýsköpunarsamstarf má nefna, t.d. studdi Brim á árinu 2023 fyrirtækið Hugmyndamiði við þróun Meistarabúða, sem er námskeið fyrir krakka sem vilja læra að fá hugmyndir sem geta breytt heiminum.

Samstarf við stofnanir innanlands og utan er af ýmsum toga. Með Matís er unnið að þróun afurða og kortlagningu hráefna og með Hafrannsóknastofnun er lögð áhersla á þekkingaröflun varðandi lífríki hafsins. Með Íslandsstofu hefur verið lögð áhersla á uppbyggingu vörumerkisins Seafood from Iceland og samstarf um nýtingu gagna hefur verið við matvælaráðuneytið, Fiskistofu, Matís, Hafrannsóknastofnun o.fl. Samstarf við innlendar stofnanir teygir gjarnan anga sína út fyrir landsteinana eins og lestur örmerkja á makríl og síld er dæmi um.

Nýsköpun

Matarauður Austurlands

Á Austurlandi er unnið mikið af matvælum, en hjá Brim á Vopnafirði hefur framleiðsla frystra matvæla úr uppsjávarfiski verið yfir 20 þúsund tonn á ári. Matarmót Matarauðs Austurlands er haldið árlega og endurspeglar fjölbreytileika matvælaframleiðslu svæðisins. Brim tók þátt í mótinu árið 2023 í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi, en nemendur og kennarar við skólann nýttu hráefni frá Brimi til að reiða fram gómsæta rétti fyrir gesti mótsins.

Nýsköpun

Breið þróunarfélag

Árið 2020 gerðu Brim og Akraneskaupstaður með sér samkomulag um að stofna Breið þróunarfélag, en verkefni félagsins voru skapa ný atvinnutækifæri á grundvelli þróunar, skapandi greina og nýsköpunar en einnig að þróa breytt skipulag á Breiðinni. Þessi ákvörðun hefur reynst farsæl. Fyrsta verkefnið var að breyta gömlu fiskiðjuveri Brims í nýsköpunarsetur. Í dag eru hátt í eitt hundrað manns starfandi í gamla fiskvinnsluhúsinu og störfin fjölbreytt. Samkomulag Brims og Akraneskaupstaðar hefur verið framlengt til loka árs 2026.

Ný starfsemi hefur orðið til á grundvelli hugvits og nýsköpunar. Nýsköpunarfyrirtækin Running Tide, Norður, Algó og Sedna biopack eru með starfsstöð í Breið nýsköpunarsetri. Þar er einnig líftæknismiðja, sem er opið samvinnurými í lífmassarannsóknum, og leggur áherslu á verðmætasköpun úr þara, þörungum og grjótkrabba. Innan veggja setursins má einnig finna Fab Lab smiðju, nýsköpun í máltækni og fjölda annarra öflugra fyrirtækja og stofnana á borð við KPMG, Eflu og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi.

Í starfsemi Breiðarinnar er lögð áhersla á samstarf, jafnt innan nýsköpunarsetursins sem og við háskóla, menntastofnanir og fyrirtæki innanlands sem utan. Sóttir hafa verið styrkir fyrir hin ýmsu verkefni á sviði rannsókna og nýsköpunar og fjöldi listsýninga og hönnunarviðburða verið haldnir. Þróun Breiðarinnar undirstrikar mikilvægi þess að vinna með heildstæða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, sem byggir á innviðum, nýsköpun, tækni og mannauði. Í samræmi við það er framundan undirbúningur nýs deiliskipulags á Breiðinni í takt við vinningstillögu hugmyndasamkeppninnar sem haldin var sumarið 2022.

Nýsköpun

Nýsköpunarvikan

Brim var meðal styrktaraðila Nýsköpunarvikunnar árið 2023 og bauð m.a. í heimsókn í vinnslu félagsins í Norðurgarði, í samvinnu við Marel. Vinnslan var endurnýjuð árið 2020 og er hátæknibúnaður frá Marel mikilvægur hluti af henni, m.a. í því augnamiði að auka nýtingu hráefna og sjálfvirkni í vinnslunni. Í Nýsköpunarvikunni var lögð áhersla á loftslagstengda nýsköpun, en Brim hefur á síðustu árum unnið ýmis verkefni sem auka verðmæti og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Samfélagsverkefni

Fiskhúsið á Vopnafirði

Vorið 2023 gekk Brim frá kaupum á Fiskhúsinu í miðbæ Vopnafjarðar. Húsið var byggt árið 1886 sem pakkhús af selstöðuversluninni Örum og Wulffe. Húsinu var mikið breytt á fyrri helmingi 20. aldar og var þar rekið frysti- og sláturhús frá 1932. Um árabil var þar bifreiðaverkstæði Kaupfélags Vopnfirðinga og um tíma fiskmarkaður. Undanfarin ár hefur það verið nýtt sem geymsla. Brim festi kaup á húsinu með samfélagsþróun að markmiði og eru þar m.a. til húsa í dag listakonan Sigrún Lára Shanko, Pílufélag Vopnafjarðar og nytjamarkaðurinn Hirðfíflin, sem styrkt hefur hjúkrunarheimili Sundabúð með veglegum gjöfum á liðnum árum.

Í Fiskhúsinu var haldin jólaskemmtun og fór hluti bæjarhátíðarinnar Vopnaskaks fram í húsinu á árinu 2023. Á sjómannadaginn bauð Brim í súpu á sjómannadaginn í Fiskhúsinu, þar sem gestir nutu veðurblíðunnar við óm af harmonikkuleik, áður en haldið var til dansleiks í félagsheimilinu Miklagarði sem Brim stóð að.

Samfélagsverkefni

Sjávarútvegur og unga fólkið

Mikilvægt er að ungt fólk fái möguleika til að kynnast nútíma sjávarútvegi. Brim tók á árinu 2023 á móti nemendum frá Vopnafirði, Akranesi og víðar og kynnti starfsemi félagsins fyrir þeim.

Brim stendur að starfsemi Sjávarútvegsskóla unga fólksins í Reykjavík í samráði við fleiri sjávarútvegsfyrirtæki og Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri.  Sjávarútvegsskólann sóttu um 70 ungmenni í vinnuskólum Reykjavíkur, Kópavogs og Seltjarnarness sumarið 2023.

Kynning frá starfsfólki Brims er hluti námsins, farið er í vettvangsferðir um borð í skip og landvinnslu Brims og rætt um sögu Brims og starfsemi félagsins. Þá fræðast nemendur um sögu fiskveiða og fiskvinnslu á Íslandi, aflamarkskerfið, tegundir fiska, markaðsmál, gæðamál, öryggismál og nýsköpun. Fleiri fyrirtæki eru heimsótt og hlýtt á fyrirlestra starfsmanna þeirra. Sjávarútvegsskóinn hefur verið starfræktur frá árinu 2013 á Austurlandi, frá árinu 2017 á Norðurlandi og frá árinu 2019 í Reykjavík.

Samfélagsverkefni

Samstarf við Hið íslenska bókmenntafélag

Brim gerði samstarfs- og styrktarsamning við Hið íslenska bókmenntafélags og gerðist bakhjarl félagsins frá 2021 til ársins 2025. Sjávarnytjar eru samofnar íslenskri tungu og menningu með fjölbreyttum hætti. Brim ýtti úr vör átaki m.a. á heimasíðu félagsins og í tilefni af Degi íslenskrar tungu til að minna á að sjávarhættir og sjósókn eru samofin íslenskri menningu og tungu eins og sést vel á fjölmörgum málsháttum og orðtökum sem vísa í þá átt.

Heilsudagar á Vopnafirði

Ákveðið var árið 2022 að fara í sameiginlegt fræðslu- og heilsuverkefni með Vopnafjarðarhreppi. Þar sem vel tókst til hefur verkefninu verið haldið áfram og byggir það á samstarfi við leikskóla, grunnskóla, félagsmiðstöðina og félag eldri borgara. Starfsfólk Brims á Vopnafirði mun áfram gegna lykilhlutverk í þessu verkefni.

Samfélagsverkefni

Kynning á starfsemi Brims

Starfsfólk Brims hefur lagt sig fram um að kynna starfsemi félagsins og jafnframt íslensks sjávarútvegs fyrr og nú. Á árinu 2023 var tekið er á móti fjölbreyttum hópi innlendra og erlendra nemenda, stjórnmála-og embættismanna, fulltrúa félagasamtaka o.fl. Farið er yfir helstu þætti í starfsemi félagsins, stefnu í umhverfis- og samfélagsmálum og í sumum tilvikum farið í kynnisferðir um borð í skip og í landvinnslu Brims. Á árinu 2023 var m.a. tekið á móti ýmsum samstarfsfyrirtækjum Brims, fulltrúum lífeyrissjóða, félagi umhverfisfræðinga, Rotary klúbbi Reykjavíkur, Félagi kvenna í sjávarútvegi, MBA nemendum frá Rotterdam, nemendum úr Tækniskólanum, Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands, grunnskólanemendum af Akranesi og úr Sjálandsskóla, hópi fyrrverandi sendiherra á Íslandi og hópi fyrirtækja frá Grænlandi og Færeyjum sem vildu kynna sér áherslur Brims tengt innleiðingu á CSRD tilskipun Evrópusambandsins.