Umhverfis- og loftslagsmál

Umhverfis- og loftslagsmál

Stefna Brims í sjálfbærni og umhverfismálum

Brim leggur áherslu á ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi í starfsemi sinni og hefur frá árinu 2017 gefið út skýrslu sem fjallar um umhverfis- og samfélagsþætti. Í gildi er umhverfis- og loftslagsstefna og markmið á sviði umhverfis og samfélags. Fjárfestingar og innra starf félagsins taka mið af þessum markmiðum. Lögð er áhersla á vernd vistkerfa, nýtingu grænnar orku og uppbyggingu hringrásarhagkerfisins með lágmörkun sóunar og víðtæku samstarfi. Brim fjárfesti á árinu 2023 í þessu samhengi m.a. í þróun veiðarfæra, landtengingum skipa, umhverfisstjórnunarkerfi og bættri nýtingu í uppsjávarvinnslu.

Stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið á sviði loftslagsmála og orkuskipta og stuðlar stefna Brims að því að þau markmið náist. Frekari fjárfestingar Brims á sviði orkuskipta eru fyrirhugaðar, m.a. með rafvæðingu flutninga- og framleiðslutækja sem leysa olíuknúin tæki af hólmi. Til að koma megi þeim fjárfestingum til framkvæmda er mikilvægt að aðgengi að raforku sé tryggt og virðisskapandi framleiðslu á Íslandi sé forgangsraðað, t.d. umfram rafmyntagröft. Þá er mikilvægt að skera úr um það hvernig kerfi upprunaábyrgða verði innleitt hér á landi. Ef íslensk fyrirtæki þurfa að kaupa upprunaábyrgðir tengt raforkukaupum mun rekstrarkostnaður og áhætta vegna fjárfestinga í nauðsynlegum innviðum orkuskipta aukast. Þetta á t.d. við um búnað til landtenginga skipa. Upprunaábyrgðirnar virka þannig í raun sem öfugur kolefnisskattur og munu óhjákvæmilega tefja orkuskipti.

Umhverfisþættir - markmið, stefna og verkefni

Brim hefur á árinu 2023 fylgt eftir markmiðum sínum á sviði umhverfis og samfélags, sem sett voru árið 2021.

  • Brim hefur sett sér það markmið til ársins 2025 að auka hlutfallslega notkun á landrafmagni til skipa þegar þau eru í höfn um 10-20% í stað olíu
    Hlutfallsleg notkun á landrafmagni jókst umtalsvert á árinu 2023. Samtals voru notaðar um 700 MWst af raforku til landtenginga skipa. Gera má ráð fyrir að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda vegna þessa nemi ríflega 600 tCO2*, sem jafngildir árlegri losun um 500 fólksbifreiða**. Landtengingar skipa eru að mati Brims skilvirk leið til árangurs í loftslagsmálum sem geta einnig nýst við rafvæðingu flutningabíla á landi.
  • Brim hefur sett sér það markmið til ársins 2025 að auka hlutfallslega notkun heitavatns til skipa í höfn um 30-50% í stað olíu
    Heitavatnsnotkun skipa var um 6000m3 og dróst heldur saman eftir mikinn vöxt á milli áranna 2021 og 2022. Notkun á heitu vatni fer vel saman við notkun landrafmagns og er mikilvægt að innviðir hafna verði uppfærðir til að gera ráð fyrir þessum loftslagsvænu leiðum til vinnu og upphitunar um borð.
  • Stefnt er að því að setja upp rafmagnstengingu fyrir uppsjávarskip á hafnarbakkanum á Vopnafirði fyrir árslok 2024
    Fyrir dyrum standa framkvæmdir við lengingu hafnarkants á Vopnafirði. Samhliða þeim framkvæmdum stefnir Brim að uppsetningu rafmagnstengingar fyrir uppsjávarskip.
  • Stefnt er að því að olíunotkun hvers fiskiskips félagsins dragist saman um 2% á ári næstu árin
    Olíunotkun skipa dróst saman um 10% á milli áranna 2021 og 2022, en jókst aftur um 3% á milli áranna 2022 og 2023. Fleiri frystiskip voru í notkun á árinu 2023 en fyrra ár, sem skýrir aukningu að nokkru leyti.
  • Við endurnýjun á bílum og vinnuvélum félagsins verða valin farartæki sem nota endurnýjanlega orku ef þess er nokkur kostur
    Fjárfest var í rafdrifnum lyfturum fyrir bolfisksvinnslu félagsins í Norðurgarði á árinu 2023. Loftslagsáhrif fjárfestinga í rafbílum og rafdrifnum vinnuvélum eru takmörkuð.
  • Útskiptum á freon kælimiðlum ljúki að stærstum hluta fyrir árslok 2025
    Útskiptum á freon kælimiðlum í skipum lauk að verulegu leyti á árinu 2022. Enn eru fyrir hendi einstök eldri kerfi í landi, sem skipt verður út á næstu árum. Losun vegna kælimiðla dróst saman um 42% á árinu 2023.
  • Hlutfall endurvinnanlegs rekstrarúrgangs aukist um 3% á ári til ársins 2025 með markvissu átaki
    Endurvinnsluhlutfall úrgangs var 79% árið 2023, en var 78% árið 2022 og 74% á árinu 2021.
  • Leitað verður leiða til að aukið hlutfall rekstrarúrgangs fari í hringrásarhagkerfið
    Losun vegna úrgangs dróst áfram saman á árinu 2023. Lögð var áhersla á samstarf við birgja og tók Brim m.a. í notkun 100% endurunna strekkifilmu fyrir vörubretti á árinu. Með notkun á endurunnum umbúðalausnum stuðlar Brim að aukinni eftirspurn í hringrásarhagkerfinu og hvetur þannig til notkunar endurunninna efna í stað nýrra hráefna.
  • Umhverfisstjórnunarkerfi félagsins stýri nýtingu á raforku, köldu og heitu vatni á sem hagkvæmastan hátt og dragi úr sóun
    Umhverfisstjórnunarkerfi Brims er hornsteinn í framkvæmd loftslagsstefnu Brims. Þróun þess er nú í höndum Stiku umhverfislausna ehf (Stika), en með stofnun Stiku árið 2022 var stefnt að því að umhverfisstjórnunarkerfið geti nýst fleiri fyrirtækjum.
  • Brim stefnir að því að verða virkur þátttakandi í vottaðri kolefnisbindingu á Íslandi með skógrækt, með endurheimt votlendis og/eða með öðrum aðferðum fyrir árið 2025
    Brim hóf skógræktarverkefni sitt á Torfastöðum í Vopnafirði á árinu 2023. Skógræktarverkefnið fylgir aðferðafræði og stöðlum Skógarkolefnis og er skráð í International Carbon Registry (verkefnisnúmer 175). Gróðursett voru tæp 100 þúsund tré og verður verkefninu framhaldið á árinu 2024. Verkefnið er unnið í góðu samstarfi við landeigendur á nærliggjandi jörðum. Gert er ráð fyrir að hluti jarðarinnar geti nýst sem útivistarsvæði fyrir Vopnfirðinga og gesti þeirra.

    *Þegar gefið er upp magn tCO2 í árs- og samfélagsskýrslu Brims 2023 er átt við tonn koldíoxíðígilda (tCO2-eq), en það er ígildi eins tonns af koldíoxíðútblæstri. EFLA verkfræðistofa hefur endurskoðað framsett gögn fyrir árin 2020 - 2023, útreikninga í kerfinu, forsendur staðla og áritað umhverfsuppgjör Brims sem skoðunaraðili eftir afstemmingu gagna við fjárhag.
    **Hér er miðað við uppgefna losunarstuðla innflytjanda á algengri fólksbifreið og 12 þúsund km akstur á ári

Græn og blá fjármögnun

Fjármögnun Brims tekur mið af stefnu í umhverfis- og samfélagsmálum

Brim samdi um 33 milljarða sjálfbærnitengt sambankalán í júní 2023 en í lánaskilmálum eru hvatar til aukinnar sjálfbærni og skilgreindir árangursvísar á sviði umhverfis- og samfélagsmála í samræmi við stefnu og markmið Brims. Árangursvísarnir taka m.a. til losunar gróðurhúsalofttegunda vegna veiða og er Brim frumkvöðull í slíkri upplýsingagjöf á heimsvísu. Lánveitendur eru þrír alþjóðabankar, alþjóðlegi matvæla- og landbúnaðarbankinn Rabobank, norræni Nordea bankinn og norski DNB bankinn. Íslandsbanki er umsjónar- og veðgæsluaðili lánsins og Rabobank umsjónaraðili sjálfbærniþátta, en fjallað er um lánveitinguna í áhrifamatsskýrslu Rabobank fyrir árið 2023.

Brim gaf út græn og blá skuldabréf á árinu 2021. Sú fjármögnun hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur tæpum 8 þús tCO2 eins og sjá má í áhrifamatsskýrslu.

Ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Innleiðing reglugerða um upplýsingagjöf varðandi áhrif Brims á sjálfbæra þróun

Upplýsingar um umhverfisáhrif rekstrar Brims eru grundvöllur innleiðingar félagsins á nýrri löggjöf um ófjárhagslega upplýsingagjöf (CSRD - Corporate Sustainability Reporting Directive). Brim mun birta upplýsingar á grundvelli þeirrar löggjafar fyrir reikningsárið 2024, í samræmi við ESRS (European Sustainability Reporting Standards) staðlana sem CSRD löggjöfin grundvallast á. Grunnniðurstöður tvöfaldrar mikilvægisgreiningar liggja fyrir, en markmið þeirrar vinnu er að kortleggja mikilvægustu þætti sjálfbærrar þróunar sem Brim hefur áhrif á og hvaða áhrif breytingar á þessum þáttum hafa á rekstur Brims.

Flokkunarreglugerð ESB (EU Taxonomy) tók gildi 1. janúar 2023, með innleiðingu laga nr 25/2023. Evróputilskipunin ákvarðar þau tæknilegu matsviðmið sem styðjast skal við þegar metið er hvort atvinnustarfsemi geti fallið undir skilgreiningu tilskipunarinnar á því hvað sé umhverfislega sjálfbært og þá hvort umrædd fjárfesting/atvinnustarfsemi sé umhverfislega sjálfbær.

Tæknileg matsviðmið hafa ekki verið skilgreind fyrir framleiðslu sjávarafurða og er því einungis lítill hluti af starfsemi Brims sem skilgreina má sem umhverfislega sjálfbæra starfsemi, skv. flokkunarreglugerðinni. Tæknileg matsviðmið eru þó í þróun og kom Brim, í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og matvælaráðuneytið, að umsögn fjármála-og efnahagsráðuneytisins til Evrópuráðsins (Platform on Sustainable Finance). Í umsögninni er lagt til að tæknileg matsviðmið um sjálfbæra framleiðslu sjávarafurða taki mið af annarri matvælaframleiðslu, en niðurstöður vísindarannsókna sýna að losun gróðurhúsalofttegunda tengt framleiðslu íslenskra sjávarafurða er takmörkuð í samanburði við losun gróðurhúsalofttegunda tengt framleiðslu flestra annarra prótínríkra matvæla. Nánari upplýsingar um niðurstöðu flokkunar starfsemi Brims má finna í ársreikningi félagsins, bls. 44-46.

Líffræðileg fjölbreytni og vistkerfisnálgun

Líffræðileg fjölbreytni merkir breytileiki meðal lífvera í margbreytilegu umhverfi, þar með töldum meðal annars vistkerfum á landi, í sjó og vötnum og þau vistfræðilegu kerfi sem þær eru hluti af. Þetta nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og meðal vistkerfa. Vistkerfisnálgun er þegar stjórnun á notkun lands, lagar og lifandi auðlinda er samræmd og hvetur til verndunar og sjálfbærrar nýtingar með jafnrétti að leiðarljósi.
(Heimild: BIODICE)

Líffræðileg fjölbreytni

Á síðustu árum hefur aukin áhersla verið á líffræðilega fjölbreytni í alþjóðlegri umræðu um sjálfbæra þróun. Endurspeglast sú áhersla m.a. í vinnuhópi um líffræðilega fjölbreytni (e. Task force on Nature-related Financial Disclosures) og þróun ESRS staðlanna (e. European Sustainability Reporting Standards). Brim hefur um árabil haft líffræðilega fjölbreytni til hliðsjónar í sínu starfi, en Ísland er aðili að alþjóðasamningi um vernd líffræðilegrar fjölbreytni frá árinu 1992 (e. Convention on Biological Diversity - www.cbd.int).

Tveir starfshópar, á vegum matvælaráðuneytisins og umhverfis,-orku og loftslagsráðuneytisins, fjalla nú um innleiðingu aðgerða til verndar líffræðilegrar fjölbreytni á íslensku hafsvæði, m.a. í samræmi við nýlegar alþjóðasamþykktir (Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework). Samráð við hagaðila er mikilvægur þáttur í þeirri aðferðafræði, þar á meðal samráð við sjávarútvegsfyrirtæki. Brim hefur byggt upp þekkingu á sviði líffræðilegar fjölbreytni og öðrum þáttum sjálfbærrar þróunar og tók á árinu 2023 m.a. þátt í vinnu á vegum BIODICE, samstarfsvettvangs um líffræðilega fjölbreytni og gerð vegvísis Festu. Eftirfarandi eru helstu sjónarmið Brims tengt umræðu um vistkerfisnálgun og vernd líffræðilegrar fjölbreytni:

  1. Sjávarútvegur á mikið undir að vel takist til um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Mikilvægt er að vistkerfisnálganir atvinnugreina vinni saman og myndi eina samhæfða vistkerfisnálgun.
  2. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni í hafi snýst einungis að litlu leyti um fiskveiðistjórnun í hefðbundnum skilningi. Skilgreina þarf hvað vernda skal og fyrir hverju, þróa verndaráætlanir út frá víðtækri þekkingu á umhverfi og atvinnuháttum og byggja á hvötum sem stuðla að metnaði hagaðila til langtímaárangurs.
  3. Verndarsvæði á íslensku hafsvæði þarf að þróa á forsendum verndar og sjálfbærrar nýtingar, áður en athafnir nýrra atvinnugreina aukast til muna.
  4. Efla þarf almennan skilning á hugtökum sem varða líffræðilega fjölbreytni, s.s. viðkvæm vistkerfi, tegundafjölbreytni og erfðafjölbreytni innan tegunda.


Stika umhverfislausnir

Þróun umhverfisstjórnunarkerfis Brims er nú í höndum fyrirtækisins Stika umhverfislausnir ehf. (Stika). Með stofnun Stiku er stefnt að því að umhverfisstjórnunarkerfið geti nýst fleiri fyrirtækjum en Brim nýtir kerfið til að halda utan um losun gróðurhúsalofttegunda vegna bruna olíu og kælimiðla (umfang 1), vatns- og rafmagnsnotkunar (umfang 2) og losunar í virðiskeðjunni, s.s. vegna umbúða, flutninga og úrgangsmyndunar (umfang 3). Endurbætt útgáfa kerfisins verður innleidd hjá Brimi á árinu 2024 og er stefnt að því að upplýsingar úr kerfi Stiku, auk upplýsinga úr öðrum upplýsingakerfum Brims geti nýst til að greina enn betur möguleika til umbóta á sviði umhverfis- og loftslagsmála og til aukinnar verðmætasköpunar félagsins.

Umhverfisuppgjör

Samstarf um nýsköpun og bætt umhverfisuppgjör

Samstarf við birgja, þjónustuaðila, nýsköpunarfyrirtæki, háskóla og rannsóknastofnanir er að mati Brims mikilvægt til að ýta undir framþróun á sviði umhverfis og samfélags. Með hagnýtingu gagna og þekkingar skapast forsendur til vandaðrar ákvarðanatöku, m.a. um langtíma fjárfestingar og hagkvæma nýtingu hráefna, með aukna verðmætasköpun og lágmörkun umhverfisáhrifa að markmiði. Samstarf á árinu 2023 fól m.a. í sér útskipti á umbúðum úr nýju plasti yfir í 100% endurunnin plastefni, prófun nýrra veiðarfæra, rannsóknir með Hafrannsóknastofnun og Matís, kolefnisbindingu með skógrækt, hagnýtingu gagna með Fiskistofu og samstarf við háskóla á Íslandi og erlendis í formi meistaraverkefna, lokaverkefna í grunnnámi og starfsþjálfunar. Samstarf innan Brims og við Stiku og Eflu verkfræðistofu um þróun og yfirferð umhverfisuppgjörs Brims hefur bætt utanumhald gagna.

Losunarstuðlar vegna bruna olíu (umfang 1) hafa verið uppfærðir í samræmi við nýjustu niðurstöður alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (International Maritime Organization) og losunarstuðlar vegna notkunar raforku og vatns (umfang 2) í samræmi við gögn frá Umhverfisstofnun, Orkustofnun og veitufyrirtækjum. Gert er grein fyrir losun í umfangi 2 miðað við raunlosun á Íslandi (landsgrunnur) og reiknaða losun miðað við upprunaábyrgðakerfi Evrópusambandsins (markaðsgrunnur).

Í umfangi 3 hefur nánar verið greint á milli framkvæmdaúrgangs og rekstrarúrgangs og losunarstuðlar uppfærðir í samræmi við nýjustu útgáfu Umhverfisstofnunar. Umfang 3 nær yfir framleiðslu olíu og flutninga til landsins, umbúðanotkun, innanlandsflutning vara og hráefnis, inn- og útflutning aðfanga og afurða til og frá félaginu, ferðir starfsfólks til og frá vinnu, notkun bílaleigubíla og flugferðir starfsfólks. Losunarstuðlar vegna umbúða hafa verið yfirfarnir og samstarf við flutningafyrirtæki aukið um notkun raungagna vegna flutninga, í stað notkunar losunarstuðla.

Útreikningur á kolefnisspori afurða (kg CO2/kg afurð) félagsins er unninn samkvæmt ISO 22948:2020 (Carbon footprint for seafood) og er tekið tillit til umfangs 1 og umfangs 2 auk losunar við framleiðslu og flutninga á olíu, umbúðum, veiðarfærum og efnavöru (hreinsiefni o.fl.) auk losunar við flutninga afurða frá Brimi og til kaupanda. Breytingar frá 2022 fela í sér að losun vegna framleiðslu jarðefnaeldsneytis (um 14% af losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis) reiknast með í kolefnisspori afurða árið 2023. Þessi losun hefur verið hluti af losunarbókhaldi Brims frá 2021 en ekki hefur áður verið tekið tillit til hennar við útreikninga á kolefnisspori afurða.

Loftslagsáhrif

Losunarkræfni tekna

Losunarkræfni tekna fyrirtækja (Greenhouse gas intensity) er mælikvarði á hlutfall losunar gróðurhúsalofttegunda fyrirtækja og verðmætasköpunar. Mælikvarðinn tekur tillit til vaxtar fyrirtækja og getur nýst til samanburðar á milli fyrirtækja í ólíkum atvinnugreinum og til að meta mismunandi fjárfestingarkosti sem hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Brim hefur fjárfest umtalsvert á síðustu árum með aukna verðmætasköpun og minni losun gróðurhúsalofttegunda að markmiði. Hafa ber í huga að margir ytri þættir geta haft áhrif á losunarkræfni tekna, svo sem markaðsaðstæður og staða fiskistofna.

Þar sem upplýsingar um losun vegna umfangs 3 liggja ekki fyrir nema takmarkað aftur í tímann er losunarkræfni heildartekna miðuð við umfang 1 og umfang 2 eins og það var reiknað árið 2015. Er þetta gert til að hægt sé að bera saman losunarkræfni tekna yfir lengra tímabil. Á komandi árum er stefnt að því að útreikningar á losunarkræfni tekna taki mið af heildarlosun.

Loftslagsáhrif afurða Brims í samanburði við önnur matvæli

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu sjávarafurða Brims er lág í samanburði við flestar aðrar matvælategundir, sér í lagi ef horft er til næringargildis og prótíninnihalds matvælanna. Takmörkuð losun í samanburði við önnur matvæli helgast af hagkvæmum veiðum úr heilbrigðum fiskistofnum, góðri nýtingu hráefna og notkunar Brims á endurnýjanlegri orku. Brim finnur fyrir auknum áhuga kaupenda á upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda, sem og áhuga fjármálastofnana á slíkum upplýsingum. Gera má ráð fyrir áframhaldandi aukningu í þá veru og eru verulegar líkur á að samkeppnisstaða íslenskra sjávarafurða muni styrkjast á komandi árum, ef lögð verður áhersla á þekkingaruppbyggingu og fjárfestingu á sviði hafrannsókna og nýtingar fiskistofna. Jafnframt er mikilvægt að forgangsraða endurnýjanlegri orku þ.a. skapa megi verðmæti úr íslenskum auðlindum víða um land.

Þær heimildir sem vísað er til á myndinni hér til hliðar eru skýrsla Sintef frá 2022, umfjöllun um loftslagsmál á vef Sameinuðu þjóðanna og gagnaveitan Our World in Data.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna veiða

Losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri Brims er að verulegu leyti vegna olíunotkunar skipa. Veður, fiskgengd og breytingar í umhverfi eru meðal þátta sem hafa áhrif á veiðar á villtum fiskistofnum og er þekking á stöðu þeirra mikilvæg til að hægt sé að lágmarka olíunotkun við veiðar. Heildarlosun skipa Brims á árinu 2023 var 65 þús tCO2. Heildarafli var ríflega 195 þús tonn.

Í samanburði milli útgerðaflokka þarf að gæta að mismunandi aðstæðum og möguleikum til verðmætasköpunar, t.d. fjarlægð á fiskimið. Af losun fiskiskipa eru um 100 tCO2 vegna rannsóknaveiða Brims og Hafrannsóknastofnunar, en fulltrúar Hafrannsóknarstofnunar, Stjörnu-Odda og Brims héldu í lok mars á gullkarfamið vestan og suðvestan lands til að athuga hvort hægt væri að bergmálsmæla gullkarfa á þekktum gotstöðvum með samanburði afla í botnvörpu og bergmálsgilda.

Stuðningur við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála

SoGreen er íslenskt sprotafyrirtæki sem hefur lagt áherslu á menntun stúlkna í Afríku sem leið til að takast á við loftslagsvána. Brim hóf á árinu 2022 stuðning við verkefni SoGreen sem stefnir að vottun kolefniseininga á komandi misserum.

Frekari upplýsingar um verkefni SoGreen

Orkunýting

Orkunotkun fiskmjölsverksmiðja

Leitast er við að nota raforku eins og kostur er í fiskmjölsverksmiðjum Brims og styðja þannig við markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Fiskmjölsverksmiðjan á Vopnafirði var að fullu rafvædd árið 2010 og var engin olía notuð við framleiðslu fiskmjöls þar á árinu 2011. Á árinu 2023 var brennt tæplega 1,3 milljónum lítra af olíu við framleiðslu fiskmjöls á Vopnafirði. Á Akranesi var brennt um 1,1 milljón lítra af olíu við framleiðsluna og dróst heildarnotkun olíu við fiskmjölsframleiðslu Brims saman um 1,6 milljónir lítra á milli áranna 2022 og 2023. Framleiðsla fiskmjöls er orkukræft ferli og voru alls notaðar tæplega 67 gígavattstundir (GWst) af orku til framleiðslu fiskmjöls hjá Brimi á árinu 2023, sem er sambærilegt og árið 2022. Um 64% orkunotkunar fiskmjölsverksmiðja var úr endurnýjanlegum orkugjöfum, sem er mun hærra en árið 2022 og dróst losun vegna olíunotkunar fiskmjölsframleiðslu saman um tæp 4800 tCO2 (42%). Þrátt fyrir það er hún enn mun hærri en á árunum 2015-2020 og helgast það fyrst og fremst af skerðingum á raforku.

Parísarsamningurinn var undirritaður á árinu 2015 og er hann grundvöllur skuldbindinga Íslands varðandi orkuskipti og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Frá árinu 2016 hefur raforkuframleiðsla á Íslandi aukist um tæplega 1700 GWst á ári, eða um ríflega 9%, en orkuaukningin hefur ekki nýst til orkuskipta nema að takmörkuðu leyti. Stórnotendum raforku á Íslandi hefur fjölgað á síðustu árum og nemur raforkunotkun nýrra stórnotenda (gagnaver og PCC á Bakka) um 1500 GWst á ári. Skerðingar á raforku hafa aukist verulega á sama tíma, en þær hafa í för með sér að fyrrnefnd fjárfesting í orkuskiptum fiskmjölsframleiðslu nýtist ekki sem skyldi. Skerðingar á raforku skapa jafnframt óvissu um fjárfestingar í frekari orkuskiptum, t.d. í landtengingum skipa. Því telur Brim mikilvægt að orkuskiptum hefðbundinna fyrirtækja verði forgangsraðað við framleiðslu og sölu raforku á komandi árum og fyrirsjáanleiki orkuafhendingar tryggður. Slíkt er forsenda þess að fyrirtæki sem skapa verðmæti úr íslenskum hráefnum geti ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar til að orkuskipti á Íslandi gangi eftir.

Orkunýting

Kolefnisgjöld á eldsneyti

Kolefnisgjald er skattur sem leggst á jarðefnaeldsneyti og var 13 krónur árið 2023 á hvern lítra af gas- og dísilolíu til skipa. Álagning þess er liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu við skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum. Samkvæmt áformum um lagasetningu á samráðsgátt stjórnvalda má gera ráð fyrir að kolefnisgjöld á eldsneyti muni hækka á komandi misserum, samhliða þróun ETS2 kerfisins, sem ætlað er að hafa áhrif á losun vegna vegasamgangna, húshitunar og smærri iðnaðar.

Orkunýting

Sala upprunaábyrgða raforku

Ákveðið hefur verið að selja innlendum heimilum og hefðbundnum fyrirtækjum upprunaábyrgðir raforku í þeim tilgangi að auka arð af starfsemi orkufyrirtækja og færa reglur til samræmis við meginland Evrópu. Upprunaábyrgðir raforku þjóna þeim tilgangi að sýna orkukaupendum fram á að orka sem keypt er sé framleidd með endurnýjanlegum hætti. Þar til árið 2022 voru upprunaábyrgðir afhentar á almennum raforkumarkaði án endurgjalds enda er ekki boðið upp á annarskonar raforku en endurnýjanlega á almennum íslenskum raforkumarkaði.

Öll raforka sem Brim kaupir er framleidd með endurnýjanlegum hætti og telst því græn. Brim stendur núna frammi fyrir því að annaðhvort greiða hærra verð fyrir raforku eða að bókhald Brims gefi til kynna að ekki hafi verið keypt græn orka. Þannig mun reiknuð losun gróðurhúsalofttegunda (umfang 2 - markaðsgrunnur) hækka sem nemur þeirri losun sem framleiðsla raforku sem Brim nýtir hefði valdið ef hún hefði verið framleidd með kolaverum eða með öðrum óendurnýjanlegum hætti eins og algengt er á meginlandi Evrópu.

Reiknuð losun Brims á gróðurhúsalofttegundum vegna umfangs 2 hefði verið 34.286 tCO2 árið 2023 en var í raun 363 tCO2 ef miðað er við raunaðstæður á Íslandi. Neytendur gera auknar kröfur til matvæla í samhengi loftslagsmála og má teljast líklegt að upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda séu þegar farnar að hafa áhrif á val ákveðinna neytendahópa á matvælamarkaði. Ef kaupendur matvæla gera kröfu um að losunarupplýsingar taki tillit til reiknaðrar losunar, mun sala upprunaábyrgða á Íslandi veikja samkeppnisstöðu íslenskra matvæla.

Brim hefur þegar fjárfest í rafvæðingu fiskmjölsframleiðslu, landtengingum skipa og öðrum verkefnum á sviði orkuskipta. Mat stjórnenda Brims er að hækkun raforkuverðs með sölu upprunaábyrgða dragi úr fýsileika nauðsynlegra fjárfestinga í orkuskiptum og vinni því gegn markmiðum Brims í loftslagsmálum og markmiðum stjórnvalda um orkuskipti á Íslandi.

Brim stefnir ekki að kaupum á upprunaábyrgðum raforku á árinu 2024.

Hringrásarhagkerfið

Brim byggir upp hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem komið er í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi. Uppbygging þess er forgangsatriði stjórnvalda þessi misserin en markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Brim hefur um árabil unnið að þessum markmiðum, með úrgangsforvörnum, endurnotkun og endurvinnslu. Frumkvæði og tillögur starfsfólks, markviss fræðsla og samstarf við birgja og opinbera aðila gegna lykilhlutverki í þessu samhengi. Metið er hvort úrgangur sem fellur til á mismunandi starfsstöðvum sé nýtanlegur á öðrum starfsstöðvum. Ef svo er ekki, er úrgangurinn flokkaður og komið í viðeigandi endurvinnslu og afdrif hans skráð í umhverfisstjórnunarkerfi Brims.

Veiðarfæri þróuð og endurunnin

Brim leggur áherslu á góða endingu veiðarfæra og merkingar í samræmi við reglur þar um. Á árinu 2023 urðu engin óhöpp þannig að veiðarfæri yrðu eftir í sjó. Brim endurvinnur í samstarfi við Hampiðjuna öll veiðarfæri sem ekki nýtast lengur. Áhafnir skipa og starfsfólk flokkunarstöðva Brims fjarlægja þá hluta veiðafæra sem endurnýta má innan félagsins en öðrum hlutum veiðarfæra er skilað til Hampiðjunnar. Þróun veiðarfæra tekur mið af kröfum á sviði umhverfis. Brim hefur á árinu 2023 fjárfest í veiðarfærum sem draga úr olíunotkun við uppsjávarveiðar og tekið þátt í rannsókna- og þróunarverkefnum um notkun ljóss við veiðar og nýtingu endurunninna hráefna í veiðarfæra gerð.

Kælimiðlar

Losun vegna kælimiðla hefur dregist saman um ríflega 70% frá árinu 2021, þegar sett var markmið um útskiptingu kælimiðla. Leki kælimiðils kom í ljós á árinu 2023 í gömlum kælikerfum á Akranesi og á Vopnafirði og voru þeir lagaðir. Vonir standa til að losun vegna kælimiðla verði hverfandi á árinu 2024.

Flutningur

Flutningur afurða til kaupenda erlendis

Flutningur á afurðum Brims fellur undir svokallað umfang 3, það er losun sem tilheyrir virðiskeðju afurðanna. Reiknivélar fyrir kolefnislosun eru nýttar að hluta til að leggja mat á losun vegna flutninga til kaupenda erlendis en Brim leggur áherslu á að til framtíðar verði raungögn frá birgjum grundvöllur upplýsingagjafar um losun tengt umfangi 3.

Á árinu 2023 var heildarlosun vegna flutnings bolfisksafurða 2.998 tCO2. Flutt voru út 16.561 tonn afurða með skipum og 655 tonn afurða með flugi. Heildarlosun vegna útflutnings á fiskmjöli og lýsi var 1604 tCO2, en samtals voru flutt út 40.103 tonn af mjöl- og lýsisafurðum.

Loftslagsmál

Verðmætasköpun í sátt við umhverfi og samfélag

Stefna Brims í umhverfis- og loftslagsmálum grundvallast á því að skapa verðmæti í sátt við umhverfi og samfélag og felur stefnan í sér markmið um kolefnishlutleysi til lengri tíma. Góð nýting auðlinda leggur grunninn að starfsemi Brims og leggur félagið sitt af mörkum til ábyrgrar auðlindanýtingar og loftslagsaðgerða. Fjárfesting í kolefnisbindingu með skógrækt hófst á Torfastöðum í Vopnafirði á árinu 2023, þegar gróðursett voru tæplega 100 þúsund tré. Við gróðursetninguna hafa verið framarlega í flokki ungt starfsfólk Brims á Vopnafirði og ungmennafélagið Einherji, auk þess sem verktakar á sviði skógræktar hafa lagt hönd á plóg. Brim stefnir að vottun kolefnisbindingar vegna skógræktar á Torfastöðum, sem þýðir að vöxtur trjánna verður tekinn reglulega út og kolefniseiningar færðar í svokallaða kolefnisskrá.

Auk þess að gróðursetja tré hefur ungt starfsfólk Brims unnið að hreinsun á Torfastöðum. Hjá bændum safnast stundum upp ýmiskonar úrgangur, t.d. rúlluplast. Haldið er utan um mismunandi flokka úrgangs og þeim komið í viðeigandi úrvinnslu.

Fyrirhugaðar eru landtengingar uppsjávarskipa Brims á Vopnafirði, enda standa væntingar félagsins til þess að aðgerðaáætlun stjórnvalda um orkuskipti nái fram að ganga og að endurnýjanleg orka verði grundvöllur haftengdrar starfsemi árið 2030. Þegar hefur verið ráðist í fjárfestingar í orkuskiptum fiskmjölsverksmiðju Brims á Vopnafirði, en vegna skerðinga á raforku til fiskmjölsframleiðslu þurfti Brim að fjárfesta í díselknúnum rafstöðvum til raforkuframleiðslu á Vopnafirði á árinu 2023.