Brim hf.

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2023

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2023

Hlutverk Brims er að auka verðmætasköpun í sátt við samfélag og umhverfi og skapa verðmæti og hagnað fyrir starfsfólk, viðskiptavini, hluthafa og samfélagið í heild. Fyrirtækið leggur áherslu á góða umgengni við auðlindina og sjálfbæra nýtingu. Brim er einn hlekkur af mörgum í gæslu og nýtingu auðlinda til verðmætasköpunar fyrir samfélagið og skilar auðlindum áfram til komandi kynslóða í góðu ástandi.

Guðmundur Kristjánsson
Forstjóri Brims

Ávarp forstjóra

Rekstur Brims var traustur á árinu 2023. Stefna félagsins er einfaldur og sjálfbær rekstur, markviss nýting veiðiheimilda, vöxtur, aukin arðsemi og öflugt markaðs- og sölustarf.

Veiðiheimildir jukust á sumum fisktegundum en minnkuðu á öðrum og hurfu jafnvel alveg eins og á djúpkarfa. Botnfiskveiðar gengu bærilega en rekstur sviðsins á árinu skilaði lægri framlegð en undanfarin tvö ár, einkum vegna aðstæðna á mörkuðum þar sem þrýstingur var á afurðaverð og kostnaðarhækkana við veiðar og vinnslu á Íslandi.

Veiðar og vinnsla uppsjávarfisks gengu vel á árinu. Sala á uppsjávarafurðum gekk vel. Markaðir fyrir mjöl og lýsisafurðir voru sterkir og afurðaverð góð og okkur gekk vel að selja loðnuhrygnu og makrílafurðir og mikil eftirspurn var eftir síldarafurðum og verð voru góð. Sala á loðnuhrognum var dræm og verð lækkaði mikið.

Við í Brimi höfum vanist því að aðstæður á okkar erlendu mörkuðum séu misjafnar. Sumsstaðar eru háð stríð og stjórnarfar er ótryggt og víða geisar verðbólga sem hefur margvísleg áhrif á viðskiptavini okkar. Til að takast á við krefjandi aðstæður á mörkuðum hefur félagið á síðustu árum lagt áherslu á að styrkja markaðs- og sölukerfi sitt. Áfanga á þeirri leið var náð á nýliðnu ári þegar gengið var frá kaupum Brims á helmingshlut í danska félaginu Polar Seafood Denmark sem er sölufyrirtæki, vinnsluaðili og útflytjandi sjávarafurða. Þá keypti félagið á haustmánuðum 10,83% hlut í sölufélaginu Iceland Seafood International sem er skráð í kauphöll Íslands.

Á árinu 2023 kom vel í ljós styrkurinn sem felst í fjölbreyttum rekstri þar sem afkoma uppsjávarsviðs var góð á meðan rekstur botnfisksviðsins var erfiðari. Reksturinn var því í heild sinni ágætur, tekjur félagsins voru 65,2 milljarðar króna og hagnaður nam 9,4 milljörðum króna eða 14,4% af rekstrartekjum ársins. Afkoma félagsins í samanburði við undanfarin ár er því góð. Efnahagur Brims er sem fyrr traustur, heildareignir eru um 143 milljarðar króna og er eigið fé 71,1 milljarður króna sem nemur helmingi eigna. Fjárhagsstaða félagsins er góð en á árinu undirritaði félagið samning við alþjóðlega matvæla- og landbúnaðarbankann Rabobank, norræna Nordea bankann og norska DNB bankann um 33 milljarða króna sambankalán á kjörum sem staðfesta tiltrú alþjóðamarkaða á sjálfbærum veiðum okkar og vinnslu á hágæða sjávarafurðum.

Þegar vel gengur hjá okkur í Brimi er það ávallt vegna liðsheildarinnar þar sem allir þekkja sitt verksvið og hver og einn leggur sig allan fram og allir róa í sömu átt. Þannig var það á árinu 2023. Starfsfólk Brims, við veiðar, vinnslu og í markaðs og sölustarfi hér heima og ytra sýndi enn og aftur hvað í því býr.

Leiðin áfram í umhverfismálum

Hlutverk Brims er að auka verðmætasköpun í sátt við samfélag og umhverfi og skapa verðmæti og hagnað fyrir starfsfólk, viðskiptavini, hluthafa og samfélagið í heild. Fyrirtækið leggur áherslu á góða umgengni við auðlindina og sjálfbæra nýtingu. Brim er einn hlekkur af mörgum í gæslu og nýtingu auðlinda til verðmætasköpunar fyrir samfélagið og skilar auðlindum áfram til komandi kynslóða í góðu ástandi.

Umhverfisvitund er einn af grundvallarþáttum í starfsemi Brims og því hefur félagið einsett sér að afla sjálft þekkingar á umhverfi og lífríki sjávar til að vera í stöðu til að taka af einurð þátt í mótun umræðu og umgjarðar um þennan málaflokk sem verður æ viðameiri og kostnaðarsamari fyrir bæði fyrirtæki, einstaklinga og samfélagið í heild. Við stöndum á vegamótum og þurfum að velja okkur farsælar leiðir áfram í umhverfismálum. Við hér á landi stöndum frammi fyrir verulegum útgjöldum til þessara mála á allra næstu árum. Mikilvægt er að þeim verðmætum verði vel varið.

Það er mikilvægt að gjalda varhug við hugmyndum um að leggja umhverfisgjöld á sjávarútveg vegna þátta sem hann hefur takmarkaða getu til að hafa áhrif á. Stjórnvöld hafa sett að markmiði að jarðeldsneyti verði ekki brennt við fiskveiðar hér við strendur árið 2050. Það er verðugt verkefni en leiðin að því er ekki skattleggja sérstaklega notkun á jarðeldsneyti fram að þeim tíma í þeirri trú að slík gjaldheimti flýti för. Íslenskur sjávarútvegur hefur brennt eldsneyti til að knýja vélar fiskveiðiskipa og báta í yfir eina öld og mun gera það áfram þangað til fremstu véla- og skipa framleiðendur þessa heims bjóða skip með vélum sem knúnar eru af vistvænum orkugjöfum. Íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt það á síðustu áratugum að hann er í forystu í heiminum þegar kemur að sjálfbærni veiða og vinnslu og hin allra síðustu ár hefur markvisst dregið úr umhverfisáhrifum veiða eins og sjá má í tilfelli Brims sem hefur dregið 30% úr losun gróðurhúsalofttegunda frá 2015 miðað við verðmæti seldra sjávarafurða. Öruggt má telja að íslenskur sjávarútvegur muni bregðast hratt við þegar veiðiskip sem knúin eru af grænum orkugjöfum koma á markað. Það væri undarleg ráðstöfun stjórnvalda að auka álögur á fyrirtækin í greininni þangað til vegna þess að þau nýta þann eina kost sem í boði er. Þar með væru stjórnvöld að veikja fjárhagslega getu fyrirtækjanna til að bregðast hratt við með fjárfestingum sem þá verða aðkallandi þegar vonandi ný tækni verði komin til skjalanna.

Í dag glímir Brim við geta ekki fengið þá raforku sem það þarf til sinnar starfsemi á Vopnafirði. Það skýtur skökku við í landi orkugnægta að rafmagn skuli vera af skornum skammti og skattlagt með þeim afleiðingum að hægja mun á fjárfestingum sem hraða orkuskiptum. Enginn efast um mikilvægi sjálfbærni, fjölbreytni tegundanna eða baráttunnar fyrir minni losun koltvísýrings en það er mikilvægt að leiðirnar sem stórnvöld bjóða helgist af ráðdeild og skynsemi. Sóun verðmæta í þágu markmiða sem enginn deilir um er líka sóun.

Lykilmælikvarðar Brims í umhverfismálum þróast í sífellu í samræmi við vaxandi þekkingu innan félagsins og í samfélaginu öllu. Félagið vinnur að ýmsum verkefnum sem lúta að markmiðum félagsins í umhverfismálum eins og að bæta nýtingu á orku og glatvarma í fiskmjölsframleiðslu, raftengingu skipa við hafnir, rafdrifnum flutningi sjávarafurða á landi, þróun vistvænni veiðarfæra og uppbyggingu á stjórnunarkerfi og hugbúnaði sem heldur utan um ófjárhagslega þætti og mælikvarða. Mörg þessara verkefna eru unnin í ánægjulegu samstarfi við nýsköpunarfyrirtæki, háskóla og rannsóknastofnanir.

Duttlungar manna og náttúru

Sveiflur náttúrunnar hafa alltaf sett mark sitt á sjávarútveg og svo var einnig á árinu 2023. Gæftir og veiðar voru breytilegar eftir tegundum og árstíðum. Sjávarútvegurinn hefur í áranna rás lagað sig að duttlungum náttúrunnar og náð sífellt betur að bregðast við óvissu og veðrabrigðum. Erfiðar hefur reynst að bregðast við duttlungum manna, einkum stjórnmálamanna. Þar heggur sá er hlífa skyldi. Í stað þess að leggja sjávarútvegi lið með að draga úr óvissu, skapa stöðugleika og auka fyrirsjáanleika hafa stjórnvöld stóraukið umrót, óróa og óvissu með óvæntum og jafnvel ólöglegum stjórnsýsluaðgerðum, umboðslausri boðun breytinga sem gjörbreyta forsendum og grundvelli í rekstri fyrirtækja í greininni og þá voru stjórnvöld á árinu rekin heim með skömm fyrir að beita fyrir sig sjálfstæðum stofnunum í pólitískum tilgangi án nokkurra stoða í lögum.

Fyrst skal nefna að á árinu lokuðu stjórnvöld einu fyrirtæki í sjávarútvegi með sólarhringsfyrirvara og héldu síðan greininni allri í greipum óvissu vegna tíðinda um að embættismenn í ráðuneyti matvæla væru að skrifa ný fiskveiðistjórnunarlög án nokkurrar aðkomu þeirra sem unnið hafa eftir gildandi lögum í áratugi eða þeirra sem höfðu unnið að verkefni sem hlaut nafnið Auðlindin okkar. Kom þetta á óvart því samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar átti að meta fjárhagslegan ávinning kerfisins og bera saman stöðuna hér og erlendis og síðan leggja fram tillögur um að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs. Hvorki mat né samanburður hafði átt sér stað þegar ráðherra svipti hulunni af nýju lagafrumvarpi sem á að gjörbreyta margvíslegum forsendum greinarinnar. Enn hefur slíkur samanburður ekki litið dagsins ljós. Það skapar að sönnu erfiðleika í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja í fjárfrekum rekstri þegar þau þurfa að búa við duttlungafullar ákvarðanir stjórnvalda sem í ofanálag segja eitt og gera allt annað. Traust til stjórnvalda brestur og þá um leið trúin á að umgjörð greinarinnar haldi en hún leggur grundvöllinn að öllum meiriháttar ákvörðunum fyrirtækja sem varða fjárfestingar og uppbyggingu til framtíðar. Vantraust sem stjórnvöld skapa með framgöngu sinni stuðla að minni fjárfestingum, stöðnun og lakari lífskjörum þjóðarinnar.

Sjaldan er ein báran stök. Vantraust sjávarútvegsins í garð stjórnsýslunnar í greininni fer einnig vaxandi. Ákvarðanir stjórnvalda um aflamark í ýmsum tegundum vekja æ oftar furðu og vísindalegur grunnur sumra þeirra er í senn rýr og ógagnsær og samræmist illa upplýsingum og reynslu skipstjórnar- og sjómanna sem eru við veiðar á miðum allt árið um kring. Síðan til viðbótar, eins og þegar bönnuð er öll veiði á djúpkarfa af óljósum ástæðum gerir það útgerðum erfitt fyrir því fiskar synda ekki um hafsvæðin samkvæmt reglum íslenskrar stjórnsýslu. Djúpkarfinn veiðist oft sem meðafli við veiðar á öðrum tegundum og því setur bannið þær veiðar jafnframt í uppnám. Þarna mætti stjórnsýslan vinna betur með sjávarútveginum, deila upplýsingum og eiga í lifandi skoðanaskiptum.

Þá hafa ákvarðanir stjórnvalda um veiðar á loðnu undanfarin ár vakið upp ýmsar spurningar um hvort langtímasjónarmið ráði för þegar eitt árið er mælt með veiðibanni en 900 þúsund tonna veiði á því næsta. Slík ráðgjöf stuðlar ekki að ráðdeild eða stöðugleika og erfitt er að trúa því að slík ráðgjöf stuðli í raun og veru að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Ég hef fundið fyrir vaxandi vantrú þeirra sem starfa við sjávarútveg á þeim forsendum sem ráðgjöf stjórnvalda byggir á og leggja grunninn að ákvörðunum um fiskveiðiheimildir. Það er afskaplega óheppilegt.

Stjórnsýslan þarf í ríkari mæli að forðast yfirlæti og tortryggni í garð okkar sem starfa í greininni því við óskum eftir samráði, samstarfi og leiðbeiningum. Markmið okkar allra er hið sama – að stunda sjálfbærar veiðar og skapa verðmæti fyrir samfélagið í heild.

Allt er þegar þrennt er. Enn og aftur þurfti Brim á árinu að eiga í samskiptum við Samkeppniseftirlitið en í júlímánuði úrskurðaði eftirlitið að félaginu bæri að greiða 3.5 milljónir króna í dagsektir þar til upplýsingabeiðni eftirlitsins um eignatengsl hefði verið svarað með fullnægjandi hætti. Brim taldi hins vegar að ósk Samkeppniseftirlitsins byggði ekki á heimild í lögum og áfrýjaði til Úrskurðarnefndar samkeppnismála. Sjónarmið Brims var að eftirlitið væri að beita rannsóknarheimildum við pólitíska stefnumótun matvælaráðuneytisins og hefði ekkert með eftirlit með samkeppni að gera. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að verktakasamningur sem Samkeppniseftirlitið hefði gert við ráðuneytið um rannsókn á stjórnar- og eignatengslum í sjávarútvegi og átti að fá greitt fyrir, samræmdist ekki hlutverki Samkeppniseftirlitsins og þaðan af síður hefði eftirlitið heimild til að beita valdheimildum sínum og þvingunarúrræðum eins og dagsektum gegn Brimi til að krefjast umræddra gagna. Úrskurðarnefndin féllst því á sjónamið Brims. Þarna urðu stjórnvöld uppvís af því að misnota opinbert vald og rýra þar með traust til stofnana sem fara með mikilvægt hlutverk í samfélaginu eins og að stuðla að öflugri samkeppni í þágu almennings í landinu.

Af ofangreindu má sjá að framganga stjórnvalda á árinu stuðlaði að vaxandi vantrausti atvinnugreinarinnar í garð stjórnvalda. Stjórnvöld virðast róa í aðra átt en greinin og þegar ég lít um öxl sýnist mér þau hafa gert það um árabil. Nær allar aðgerðir stjórnvalda, hvort sem það eru breytingar á lögum eða reglum, hafa aukið byrði fyrirtækjanna – þyngt róður þeirra og takmarkað möguleika þeirra á vexti og hagræðingu. Á sama tíma dafna risavaxnir keppinautar okkar á alþjóðamörkuðum sem aldrei fyrr og hafa nú meðal annars skotið rótum í íslenskri laxaframleiðslu.

Þegar ég hitti forsvarsmenn þessara stóru fyrirtækja sem eru tugfalt stærri en Brim og þeir greina mér frá áformum sínum og áætlunum um enn frekari vöxt og hagræðingu sækir að mér sú hugsun að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eigi sífellt minni möguleika. Stærstu íslensku sjávarútvegsfyrirtækin eru læst í hámarkshlutdeildum og í margþættri óvissu sem samkeppnisyfirvöld skapa með afskiptum af minniháttar hagræðingum og síbreytilegum skilgreiningum á mörkuðum og samkeppni.

Fyrir okkur í greininni er verk að vinna. Við þurfum að opna augu almennings og stjórnvalda fyrir nauðsyn stórra og öflugra fyrirtækja í sjávarútvegi til þess að halda þeirri stöðu sem við höfum náð að byggja upp á alþjóðamörkuðum. Við þurfum stór fyrirtæki til að tryggja aðgang okkar að verðmætustu mörkuðunum fyrir fisk í heiminum því þar finnast verðmætin sem við flytjum heim til að viðhalda og efla velsæld og velferð hér á landi. En einnig þurfum við lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa sinn styrk í smærri einingum samfélagisns.

Í mínum huga er nauðsynlegt að draga fram þessa stöðu sem sjávarútvegsfyrirtæki eru komin í þar sem æ fleiri þeirra eru nú skráð á hlutabréfamarkað og beinir og óbeinir eigendur skipta tugþúsundum. Það er mikilvægt að þeir sem fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum geri sér grein fyrir þeim miklu takmörkunum sem fyrirtækjum eru sett með vöxt og hagræðingu og hvaða breytingar þurfa að eiga sér stað til að fyrirtæki í sjávarútvegi standi jafnfætis ekki aðeins keppinautum á markaði sjávarafurða heldur einnig jafnfætis öðrum skráðum fyrirtækjum á markaði hér á landi í samkeppni um fjármuni fjárfesta.

Öll hagnýting auðlinda kallar á langtímahugsun og fjárfestingar sem borga sig upp á áratugum. Stöðugleiki skapar forsendur fyrir aukinni arðsemi. Það sem Brim óskar eftir er stefnufesta stjórnvalda – við viljum losna undan duttlungum. Sjávarútvegurinn þarf skýrar leikreglur og fyrirsjánleika. Það er öllum sem á Íslandi búa fyrir bestu.

Að skapa traust

Brim vill vera virkur þátttakandi í samfélaginu og sýnir það með margvíslegum hætti með samstarfi og stuðningi við fjölmarga aðila á sviði menningar, íþrótta og mennta og þá kemur félagið að margvíslegum framfaramálum í nánasta umhverfi starfseininga og starfsfólks. Þá hefur félagið einsett sér að taka þátt í opinberri umræðu um málefni sjávarútvegsins og samfélagsins alls.

Á árinu 2023 fékk undirritaður forstjóri Brims samfélagsverðlaun tímaritsins Þjóðmála fyrir að vera talsmaður gagnsæis, stuðla að upplýsandi umræðu og hafa leitt Brim í samfélagslegum stuðningi. Slíkar viðurkenningar hvetja okkur til áframhaldandi þátttöku í samtalinu sem fram fer í samfélaginu um hvert skuli stefna og hvaða leiðir henta hverju sinni. Það er sannfæring mín að með því að spyrja okkur að því hvað sé best fyrir íslenskt samfélag, okkar atvinnulíf og menningu og velferð íbúanna getum við alltaf komist að niðurstöðu. Brim og starfsmenn Brims munu taka þátt í umræðunni og við verðum óhrædd við að segja hug okkar. Aðeins með gagnsæi, einlægni og heiðarleika getum við skapað það traust sem er grunnur að heilbrigðu og farsælu samfélagi.

Um árs -og sjálfbærniskýrsluna 

Brim gerir nú sjöunda árið í röð grein fyrir ófjárhagslegum þáttum starfsemi sinnar og í fjórða sinn með sameiginlegri árs- og sjálfbærniskýrslu.

Allar upplýsingar í skýrslunni eru í samræmi við bestu þekkingu sem við höfum yfir að búa á þeim tíma sem skýrslan er rituð en er ekki tæmandi úttekt á öllum þeim áhrifum sem Brim hefur á umhverfi, samfélag og/eða efnahag. Skýrslan er ekki endurskoðuð af þriðja aðila en EFLA hefur yfirfarið framsetningu og upplýsingar um umhverfislega þætti.

Upplýsingar um ófjárhagslega þætti starfseminnar eru unnar í samræmi við GRI Standard (e. Global Reporting Initiative GRI100-400) og UFS leiðbeiningar Nasdaq. Fyrirsjáanlegar eru auknar kröfur um upplýsingagjöf vegna ófjárhagslegra þátta, tengt innleiðingu á CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive). Vinna við árs- og sjálfbærniskýrslu 2023 hefur miðað að því að undirbúa aukna upplýsingagjöf Brims á þessu sviði.